139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

fundarstjórn.

[12:30]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Nauðsynlegt er að það komi fram við þessa umræðu um fundarstjórn og beiðni okkar til virðulegs forseta að það er enginn efi, í mínum huga alla vega, að hv. formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, hefur sinnt skyldum sínum með því að óska eftir þessum fundi en greinilega ekki orðið ágengt enn. Ég þakka henni þau svör sem hún hefur veitt okkur.

Það er einnig nauðsynlegt að það komi fram, virðulegur forseti, við þessa umræðu að það er ekki að tilefnislausu sem þessi fundarbeiðni kemur fram. Það er mjög mikilvægt að ræða þetta mál. Hjá gestum sem komu fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, fulltrúum Bændasamtakanna, kom fram að það hefur ekki verið fundað í landbúnaðarhóp um aðildarviðræður að Evrópusambandinu síðan í febrúar á þessu ári. Það eru orðnir margir mánuðir, meira en hálft ár síðan fundað hefur verið í hópnum. Það var fundað síðast um þessi mál í einni undirnefnd eða undirhóp í maí sl. Það er því ekki að tilefnislausu sem (Forseti hringir.) nefndarmenn í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd leggja svo mikla áherslu á að fá þennan fund til að reyna að (Forseti hringir.) fá einhvern sannleika fram í þessu máli.