139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[14:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir framsögu með þessu nefndaráliti. Ég vildi í upphafi taka fram að ég held að það sé gott að víðtæk samstaða hefur náðst um meginatriði frumvarpsins sem hér er til umræðu. Það er út af fyrir sig gott, ekki síst í ljósi þess að á undanförnum árum hefur verið ágreiningur um marga mikilvæga þætti sem snerta vatnamálin og óþarfi að rifja upp þær deilur sem urðu um frumvörp og löggjöf á sviði vatnamála fyrir fáeinum árum.

Það sem nú stendur eftir er frumvarp sem felur í sér að helstu grundvallarreglur vatnalaga frá 1923 eru staðfestar og munu gilda áfram, meðal annars um þau réttindi sem landeigendur hafa í sambandi við vatn og vatnsréttindi. Um þau efni hafa vissulega verið skiptar skoðanir og á stundum hefur litið út fyrir að af hálfu núverandi stjórnarflokka væri stefnt að því að skerða þau réttindi sem viðtekin hafa verið í íslenskum rétti, og ánægjulegt að ekki er gengið svo langt í þessu frumvarpi. Það er meðal annars þess vegna sem jafnvíðtæk samstaða næst um frumvarpið og hér virðist vera raunin.

Það var eitt atriði í ræðu hv. þingmanns sem ég vildi spyrja hann nánar út í. Það varðar samspil við aðra löggjöf. Nú erum við að setja löggjöf og reyndar breyta nokkuð ört margvíslegri löggjöf sem snertir skipulagsmál, leyfisskyldu framkvæmda, náttúruverndarmál og annað. (Forseti hringir.) Telur hv. þm. Kristján L. Möller að við höfum næga yfirsýn yfir allar þær mismunandi reglur sem gilda á þessu sviði þegar við erum hér í dag (Forseti hringir.) að fjalla um enn eitt frumvarpið á þessu sviði?