139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[14:30]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég get alveg tekið undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar, um að hér sé eiginlega um tímamótavinnu að ræða og að sátt hafi skapast um þessi mál. Ég fagna því mjög að við, fulltrúar í iðnaðarnefnd, skrifum öll undir breytingartillögur og nefndarálit þótt þar séu sumir með fyrirvara, þar á meðal ég, og mun ég gera grein fyrir þeim fyrirvara í þessari litlu ræðu minni.

Ef til vill er hægt að gera betur og kannski var það frumvarp metnaðarfyllra sem vatnalaganefnd 2 vann og var lengi í ráðuneytinu. En það var orðið ljóst að um það var engin sátt og það hefði ekki komið inn í þeirri sátt sem þessi atlaga að breytingu á vatnalögum gerði hins vegar. Mér finnst það afar snjöll leið að brjóta málið upp annars vegar í breytingar á þessum gömlu, ágætu vatnalögum frá 1923 og svo upp í lög um stjórn vatnamála sem heyra undir umhverfisráðherra þar sem verndarhlutinn er tekinn.

Á það er bent í nýrri grein sem bætist inn með breytingartillögum nefndarinnar, verði þær samþykktar, að samhliða þessum lögum gildi ýmis önnur lög, t.d. skipulagslög, lög um mannvirki, lög um náttúruvernd, lög um stjórn vatnamála og önnur lög eins og við á hverju sinni um rétt almennings til vatns og vatnsréttinda landeigenda. Bent var á í andsvari áðan að þetta væri kannski svolítið flókið og það er alveg rétt. En ég er ekki viss um að hægt sé að einfalda þetta mikið því að vatn er alls staðar, vatn er forsenda lífs og án þess og nýtingar þess værum við ekki hér, alla vega ekki í þeirri mynd sem við erum.

Iðnaðarnefnd hefur unnið afar gott starf undir forustu okkar flinka formanns sem náð hefur að sætta öll sjónarmið og halda vel utan um hópinn þannig að nefndin hefur nánast unnið sem einn maður. Umsóknaraðilar bentu okkur á ýmsa ágalla en þeir hafa verið lagaðir. Ég vil benda á að við frumvarpið hefur verið bætt markmiðsgrein. Við höfum líka tekið orðin „loftkennt form“ út úr frumvarpinu þannig að þessi lög gilda ekki um vatn í loftkenndu formi, enda er svo sem erfitt að koma á það böndum.

Við höfum líka afnumið heimild ráðherra til að gefa sérstakt leyfi til að menga vatn. Nefndin var alveg sammála um að það ætti að vera bannað að menga yfirborðsvatn en þessi lög gilda bara um yfirborðsvatn. Ég er svolítið stolt af því afreki nefndarinnar og formannsins að skila þessu frumvarpi í samkomulagi og sátt allra aðila.

Þetta frumvarp tengist öðru frumvarpi sem lagt var fram í þingi en náði ekki fram að ganga, þ.e. um styttingu á þeim tíma sem framselja má afnotaréttinn af vatni. Þá er aðallega átt við virkjanaheimildir. Það tengist Magma-málinu. Þegar það mál kom upp — þetta er reifað ágætlega í Morgunblaðinu í dag, það vill svo til — spratt upp mikil gagnrýni vegna þess langa tíma sem er í gildandi vatnalögum og við hróflum í raun ekki við. Fólk vildi stytta þann tíma sem Magma Energy, sem heitir reyndar Alterna ehf. í dag, og að HS Orka hefði aðgang að auðlindinni eftir að hún var komin í einkaeigu, en samkvæmt gildandi lögum eru það 65 ár sem síðan má framlengja. Við skoðuðum það frumvarp í nefndinni og satt að segja leist engum sérstaklega vel á það en ég held að forsendur manna hafi ekki alltaf verið þær sömu. Í raun sýnist mér að það sé glórulaust að stytta tímann því að þá verða fjárfestingarnar, sem eru dýrar og miklar, óarðbærar. Orkuverðið mundi hækka mikið og það minnkar líkurnar á því að fyllsta öryggis sé gætt við framkvæmdirnar.

Yfirferð á því frumvarpi hefur styrkt mig í þeirri skoðun að það eigi ekki að heimila hinu opinbera, hvort sem það er ríki, sveitarfélag eða eitthvert fyrirtæki í þeirri eigu, að framselja auðlindina. Mér finnst að raforkuframleiðsla eigi að vera á hendi hins opinbera og þess vegna mun ég leggja fram breytingartillögu að lokinni 2. umr. um frumvarpið þar sem ég mun leggja til að fella burt 3.–5. mgr. 17. gr. frumvarpsins.