139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[14:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að leiða í nokkuð víðtækri sátt til lykta mál sem hefur verið mikið ágreiningsmál í samfélagi okkar og á þingi í langan tíma eða frá því að vatnalögin frá 2006 voru sett fram en hafa aldrei öðlast gildi. Því höfum við byggt löggjöf okkar á lögum frá árinu 1923, sem hefur reynst vel að flestra mati. Þær breytingar og það frumvarp sem við fjöllum um er í megindráttum byggt á þeim lögum frá 1923.

Þetta er yfirgripsmikið mál og hefur kallað á mikla yfirlegu hjá nefndarmönnum og margir gestir og umsagnaraðilar voru fengnir til að fjalla um það á nefndarfundum. Innan nefndarinnar hefur verið góð og málefnaleg umræða og ekki neinn stór ágreiningur. Er kannski ágætt að vitna til umsagnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem vissulega gerði nokkrar athugasemdir í umsögn sinni sem að einhverju leyti hefur verið tekið tillit til en að öðru leyti ekki. Þar segir m.a. að það frumvarp sem nú liggi fyrir Alþingi feli að mörgu leyti í sér fremur hófstilltar tillögur um breytingar á vatnalögum, nr. 15/1923. Það endurspeglast kannski einmitt í þeirri almennu sátt sem virðist vera um þetta og því ágæta nefndarstarfi sem hefur átt sér stað í aðdraganda þessarar umræðu.

Stóra málið í þessu er sú skilgreining sem við byggjum svokallaðan eignarrétt á vatni á. Í nefndaráliti um þennan þátt segir, með leyfi forseta:

„Í samræmi við markmið frumvarpsins verða ekki lagðar til neinar breytingar á inntaki og stöðu vatnsréttinda frá þeim grundvelli sem lagður var með vatnalögunum frá 1923 og mótast hefur í réttarframkvæmd á síðastliðnum áratugum. Í 3. gr. frumvarpsins kemur fram sú meginregla að rétturinn til umráða og hagnýtingar á vatni sem er á fasteign tilheyrir þeirri fasteign á þann hátt sem lögin heimila.“

Þetta er auðvitað mjög mikilvægt atriði og um þetta stóð ágreiningurinn kannski hvað mest í þeim vatnalögum sem eru kennd við árið 2006. Ágreiningurinn var fyrst og fremst um hvernig eignarrétturinn yrði útfærður.

Eins og komið hefur fram hjá öðrum ræðumönnum er mjög skýr eignarréttur í lögunum frá 1923. Og fram kom á fundum nefndarinnar að það væri alveg skýrt að þessi grein væri óbreytt í nýjum lögum og því ættu öll dómafordæmi í raun við þessi nýju lög. Þau munu því ekki skapa að þessu leyti neinn nýjan ágreining sem dómstólar munu þurfa að leggja reglur um.

Aðgangsröð að vatni er eftir sem áður tryggð til allra almennra nota. Í 11. gr. laganna segir að aðgangsröð að vatni sé þessi eftir mikilvægi: 1. heimilisþörf, 2. búsþörf, 3. þörf atvinnurekstrar á landareigninni, annars en búrekstrar, svo sem iðnaðar og iðju, 4. áveituþörf, 5. orkuþörf.

Þarna er það skilgreint og farið yfir það mjög skýrt. Hinn skýri réttur almennings til vatnsöflunar er til heimilisþarfar og búsþarfar og síðan kemur þörf atvinnurekstrar í kjölfarið. Forgangsröðunin er því mjög skýr og almannaréttur að þessu leyti tryggður.

Það er nú kannski til marks um að ekki var mikill ágreiningur um málið að einn mesti tíminn hjá nefndinni fór í að ræða réttindi þeirra sem stunda stangveiðar í ám og vötnum gegn utanaðkomandi raski á veiðitíma. Skiptar skoðanir voru aðeins um það mál í nefndinni en auðvitað hafa orðið miklar breytingar á þeim 90 árum frá því að gömlu lögin tóku gildi og til dagsins í dag. Veiðar, stangveiðar og sportveiðar eru orðnar að mikilvægri atvinnugrein í landinu. Fjöldi manns hefur atvinnu af að selja og leigja veiðileyfi og veita veiðimönnum þjónustu. Veiðileyfi eru orðin mjög dýr, enda erum við með margar af skemmtilegustu og bestu laxveiðiám í heimi. Mikilvæg gjaldeyrisöflun er í kringum þessa atvinnugrein og því var mikilvægt að horfa til þess þáttar.

Sjónarmið voru uppi um að ekki mætti hefta með nokkrum hætti aðkomu og rétt almennings til að baða sig og ferðast um vötn. Ágætlega tókst að leysa það mál og koma inn ákvæðum um að slík umferð væri ekki heimil á veiðitíma svo að hún raskaði ekki ró veiðimanna og tækifærum þeirra til að nýta þau leyfi sem þeir hefðu.

Fjallað er um ráðstöfunarheimild opinberra aðila í frumvarpinu. Þar kemur fram að ríki og sveitarfélögum, svo og fyrirtækjum sem alfarið eru í eigu þeirra, er óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti rétt til umráða og hagnýtingar á því vatni sem hefur að geyma virkjanlegt afl umfram 10 megavött. Þessi 10 megavött eru þá litlar heimilisvirkjanir og auðvitað er þetta ákvæði sem hlýtur að þurfa að vera í stöðugri endurskoðun. Tækninni fleygir þannig fram að 10 megavatta virkjanir geta mjög auðveldlega með litlum tæknibreytingum orðið nokkru stærri og því þarf að endurskoða ákvæðið á hverjum tíma ef tilefni þykir til.

Nokkur umræða varð um nýtingartímann. Eins og fram hefur komið liggur fyrir þinginu frumvarp um að stytta nýtingartíma á bæði vatnsaflsvirkjunum og jarðvarmavirkjunum í 30 og 40 ár. Það frumvarp hefur hlotið mikla gagnrýni og stjórnvöld féllu í raun frá því að leggja áherslu á að það yrði afgreitt á þessu þingi, enda yrðu það miklar afleiðingar fyrir almenning og atvinnurekstur í landinu ef þær hugmyndir sem þar eru settar fram gengju eftir.

Í núgildandi lögum er kveðið á um að afnotaréttur til umráða og hagnýtingar á vatni geti verið til allt að 65 ára og það er sú viðmiðun sem við höfðum. Í drögum að þeim lögum sem komu og voru lögð fyrir Alþingi var búið að fella þetta ákvæði út. Samstaða náðist um það í nefndinni að halda inni þessum 65 árum gegn því eðlilega ferli máls að ef ný lög kæmu fram sem breyttu þessu tæki það til þessara laga. En það er mjög mikilvægt fyrir okkur að nýtingarréttur sé tryggður til langs tíma þegar kemur að vatnsafli og jarðvarma þannig að framkvæmdir hafi sem eðlilegastan afskriftatíma, ekki sé verið að stytta hann með mjög skömmum nýtingarrétti. Það hefur áhrif á verðlagningu á t.d. þeirri orku sem verið er að framleiða. Afskriftatíminn verður styttri, verðið verður hærra og samkeppnishæfi okkar sem lands sem vill laða til sín erlenda fjárfestingu verður verra. Ég geri mér vonir um að af þeim umsögnum sem fram hafa komið átti stjórnarliðar sig á því, iðnaðarráðuneytið í þessu tilfelli, og ríkisstjórnin, að við getum ekki gengið fram með þeim hætti sem fyrirhugað er í því frumvarpi og tekið verði tillit til þess ef stendur til að smíða annað frumvarp á nýju þingi. Samstaða varð því um að halda 65 árunum inni. Það var erfitt fyrir suma að kyngja því og þess vegna voru allir þessir fyrirvarar settir inn en niðurstaðan er engu að síður það sem máli skiptir.

Í 51. gr. frumvarpsins er fjallað um stíflugerð til vatnsmiðlunar. Samkvæmt greininni þarf skilyrðislaust leyfi Orkustofnunar til vatnsmiðlunar eða breytinga á henni ef flatarmál miðlunarlóns að því loknu er 1.000 fermetrar eða stærra við hæstu vatnsstöðu. Umræður urðu aðeins um þetta í nefndinni. 1.000 fermetrar eru ekki stórt land. Það er eins og sæmileg einbýlishúsalóð. Því er verið að slá þarna varnagla og er álitaefni hvort þetta hefði ekki mátt vera eitthvað stærra. En niðurstaðan varð þessi og þó að skiptar skoðanir væru um málið náðist endanlega sátt um það í nefndinni að svona færi þetta frá henni til þingsins.

Í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Við meðferð málsins í nefndinni var einnig rætt hvort óvissa kynni að koma upp um hlutverk Orkustofnunar annars vegar og viðkomandi sveitarstjórnar hins vegar við veitingu leyfa og eftirlit með leyfisskyldri framkvæmd. Heimildir sveitarstjórnar við útgáfu framkvæmdaleyfis markast eins og fyrr segir af efni 13. gr. skipulagslaga og er megininntak framkvæmdaleyfis byggt á skipulagslegum forsendum. Ekki er því um að ræða breytingu á hlutverki sveitarfélaga. Nefndin telur því ólíklegt að óvissa verði um hlutverk sveitarstjórnar annars vegar og Orkustofnunar hins vegar þar sem Orkustofnun styðst við aðrar réttarheimildir við útgáfu leyfa. Byggingarleyfi á grundvelli mannvirkjalaga lýtur að því hvort mannvirkið uppfylli hönnunarkröfur og forsendur.“

Gagnrýni á þetta kom m.a. fram hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og er umhugsunarefni hvort hefði þurft að taka meira tillit til þeirrar gagnrýni, en það var mat manna að þetta mundi ekki hafa þau áhrif í för með sér sem Samband íslenskra sveitarfélaga hafði áhyggjur af.

Mikið var fjallað um almenna umferð um vötn. Ég kom inn á það áðan að því tengdist umræða um umgengni á veiðitíma. Í nefndarálitinu segir:

„Fjallað er um heimild til að fara um vötn og til afnota af vatnsbökkum í 67. gr. frumvarpsins en þar segir að öllum sé heimil för, þar með talið á farartækjum, um vötn, einnig á ís, með þeim takmörkunum sem lög kveða á um. Fram kom hjá umsagnaraðilum að þörf væri á því að takmarka þessa heimild nánar til verndar náttúru eða lífríki eða vegna mannvirkja í eða við vatn. Nefndin tekur undir þetta og leggur til varúðarákvæði, þ.e. að heimilt verði að fara um vötn og til afnota á vatnsbökkum en þó þannig að það valdi ekki truflun á veiðum manna.“

Þarna komum við aftur að því ákvæði sem nefndin eyddi þó nokkrum tíma í og náði ágætri niðurstöðu með.

Nokkuð var fjallað um þá tímafresti sem Orkustofnun hefur vegna leyfisveitinga og tilkynningarskyldu í 79. gr. frumvarpsins. Í nefndarálitinu segir:

„Hafa verður í huga að framkvæmdir geta einnig verið leyfis- eða eftirlitsskyldar samkvæmt öðrum lögum og af hálfu annarra aðila. Nokkur umræða varð um þessi mál í nefndinni. Nefndin vill hér árétta að hún telur rétt að sett verði reglugerðarheimild í anda góðrar stjórnsýslu, sbr. 87. gr. frumvarpsins, varðandi mörk á milli þeirra framkvæmda sem eru annars vegar leyfisskyldar og hins vegar tilkynningarskyldar.

Fram kemur í 2. mgr. 79. gr. að skylt er að tilkynna Orkustofnun um allar framkvæmdir sem fyrirhugað er að ráðast í og tengjast vatni og vatnafari, þar á meðal framkvæmdir sem ekki eru sérstaklega leyfisskyldar samkvæmt þessum lögum eða öðrum. Fram kom hjá umsagnaraðilum að ákvæðið væri of almennt orðað og túlka mætti það á þann veg að það næði til allra minni háttar framkvæmda sem nauðsynlegar geta talist vegna viðgerða eða lagfæringa á veitu- og virkjanaframkvæmdum og rúmast jafnvel innan áður útgefinna framkvæmdaleyfa.“

Mjög mikilvægt er þegar sú reglugerð sem við fjölluðum um áðan verður gefin út að tekið verði tillit til þeirra ábendinga sem hafa komið fram, m.a. frá ASÍ, að allt ferli okkar til framkvæmdaleyfa í t.d. orkufrekum iðnaði er orðið mjög langsótt. Það er eitt af þeim atriðum sem koma fram í skýrslu sem Íslandsstofa lét vinna fyrir sig síðasta haust þar sem samkeppnisstaða okkar er slök gagnvart öðrum löndum þegar kemur að þessu ferli. Hjá okkur er ferlið almennt lengra, tekur langan tíma og við höfum ekki undirbúið svæðin nægilega mikið til að vera samkeppnishæf þegar kemur að því að laða að erlenda fjárfestingu. Eins mikilvægt og það er er mikilvægt að við setjum okkur skýrar reglur um hvernig við göngum um náttúruna og hvernig við nýtum náttúruauðlindir okkar. Og að jafnframt sé tekið tillit til þess að um getur verið þátt að ræða sem getur haft mikil áhrif á samkeppnisstöðu landsins gagnvart öðrum löndum. Við þurfum að geta haft þetta ferli í sem eðlilegustum farvegi og þannig að það tefjist ekki óeðlilega að framkvæmdir geti farið af stað.

Menn höfðu áhyggjur af þessu og þegar fjallað var síðar um tilkynningarskyldu til Orkustofnunar um allar framkvæmdir, þ.e. ef til kæmi að tilkynna þyrfti jafnvel framkvæmdir vegna viðgerða á einhverjum mannvirkjum sem þegar hefðu farið í gegnum allt ferlið og hefðu hlotið framkvæmdaleyfi. Það segir í nefndarálitinu, sem ég vil árétta: „Nefndin áréttar í þessu sambandi jafnframt að hér er ekki átt við nauðsynlegar viðgerðir vegna bilana á þeim mannvirkjum sem þegar hafa verið leyfð ef augljóst er að ekki er um nýframkvæmd að ræða.“ En það mátti skilja ákvæðið þannig að jafnvel til almennra viðgerða og jafnvel til bráðaviðgerða þyrfti að leita leyfa hjá Orkustofnun til að fara í þá vinnu sem nauðsynleg væri.

Ég hef tæpt á því sem mig langaði helst að koma að í umræðunni um þessi mál. Eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, erum við að leiða til lykta án mikils ágreinings mál sem hefur valdið miklum deilum í samfélaginu. Við erum í raun að staðfesta það að þau lög sem sett voru árið 1923 hafi í raun þjónað tilgangi sínum mjög vel. Stóra málið er auðvitað það að eignarréttarákvæðið er virt. Þeir sem vildu ganga lengra í að skerða það eftir lagasetninguna 2006 hafa gefið eftir með þeim hætti að eignarrétturinn er virtur og það held ég að sé mjög mikilvægt á sama tíma og almannaréttur er auðvitað virtur einnig og forgangsraðað í þágu heimila og atvinnurekstrar eftir því sem við á.

Starfið í nefndinni gekk vel eins og svo oft áður í iðnaðarnefnd. Ég hef stundum sagt áður, virðulegi forseti, að í iðnaðarnefnd er þetta þannig að þar virðist oft vera annar meiri hluti að störfum en við sjáum birtast í þinginu og væri ánægjulegt að sjá marga stjórnarliða í þeirri nefnd fylgja hugðarefnum sínum betur eftir á þingi alveg eins og þeir gera í nefndinni í góðri samvinnu við okkur. Og að þeir stæðu við stóru orðin sem þeir hafa látið falla um hversu nauðsynlegt það er að við förum að koma einhverjum framkvæmdum af stað í samfélaginu, en lendi ekki í því þegar þeim er smalað inn til þings að koma þar með skottið á milli lappanna og þar standi lítið eftir af öllum stóryrðunum sem þeir hafa látið falla á öðrum vettvangi.