139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[15:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. [Kliður í þingsal.] Við ræðum hér frumvarp …

(Forseti (UBK): Forseti vill biðja um betra hljóð í salinn.)

Samkvæmt læknisráði ætla ég að fá mér vatn.

Hér var boðað til þingflokksformannafundar. Ég óska eftir því við forseta er situr í forsetastól núna að fara fram á það við forseta þingsins að sá fundur frestist þangað til sá er hér stendur hefur lokið ræðu sinni.

Frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum er í hugum margra mjög stórt mál enda er málið býsna umfangsmikið. Það er mál sem verið hefur á borðum þingmanna og áhugamanna um vatn, umhverfi og nýtingu á vatni til mjög langs tíma. Búið er að skrifa margar skýrslur og fara djúpt ofan í hvernig best verði haldið á þessum málum og þessum mikilvæga málaflokki. Í gegnum tíðina hafa skapast deilur um hvernig umgjörð um nýtingu og eignarhald á vatni skuli hagað. Ég held þó að sú leið sem hér er farin sé vel ásættanleg og mun skynsamlegri en langar og erfiðar deilur í þingsal hvað varðar innihald þessara laga.

Það er hins vegar mikilvægt að af stað fari heildarendurskoðun á vatnalögum og lögum er ná til vatns og að það sé þá gert þannig hætti að tryggð sé aðkoma sem flestra sem talist geta hagsmunaaðilar að málinu. Málið á ekki að vinna á bak við luktar dyr einhvers staðar í ráðuneytum eða slíku, heldur eiga fulltrúar þingflokka, hagsmunasamtaka og fleiri að koma að slíkri vinnu.

Ég vil taka fram að það var að mörgu leyti mjög ánægjulegt að starfa í iðnaðarnefnd við yfirferð á þessu máli þar sem náðist að ræða málið í rólegheitum og skynsemi. Vil ég þakka formanni nefndarinnar fyrir góða stjórn á hlutunum. Það er mikilvægt að koma svona máli ekki í hnút í upphafi þannig að tími þingmanna og nefndar fari í að leysa þá hnúta. Ég get sagt það fullum fetum að vel var haldið á málinu og ég vil þakka fulltrúum ráðuneytisins, iðnaðarráðuneytisins sem komu að því.

Ég er með fyrirvara á því nefndaráliti sem fylgir frumvarpinu. Fyrirvarinn sem ég set við málið lýtur aðallega að tvennu: Ég hef áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna þegar við erum að sýsla með skipulagslög, lög sem tengjast sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna og annað. Ég er frekar hallur undir það að sveitarfélögin eigi að hafa býsna mikið um sín mál og umhverfi að segja.

Ég tel að vel hafi gengið að mæta að mestu þeim ábendingum sem komu úr þeirra ranni þó svo að ekki sé hægt að gera öllum til geðs, en okkur tókst nokkuð vel upp varðandi það.

Það er tvennt sem ég vil nefna sem ég tel mjög mikilvægt að árétta — ég vil a.m.k. að það komi fram hvernig ég skil hlutina þegar við ræðum þetta mál. Það er það hlutverk sem Orkustofnun er falið í þessu frumvarpi og breytingartillögunum er til viðbótar því hlutverki sem sveitarfélögin hafa. Það er ekki verið að taka það hlutverk af sveitarfélögunum sem þau hafa, enda gilda oft önnur lög en akkúrat þessi um hlutverk þeirra.

Einnig vil ég koma því á framfæri og tel það mjög mikilvægt að þegar farið verður að semja reglugerðir eins og vísað er í nokkrum greinum, svo sem í 79. gr., 87. gr. og fleirum, verði haft mjög náið samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga. Það er eðlilegt að sumu leyti að framkvæmdarvaldið óski eftir því að hafa heimildir til að setja á reglugerðir þegar verið er að ganga frá lagafrumvörpum, en best er að geta sett sem mest inn í frumvarpið sjálft. Það er mikilvægt að þegar farið verður að smíða reglugerðirnar verði haft samráð við þessa aðila. Ég gæti talið upp fleiri sem ættu að koma að því, sem hafa beina hagsmuni af þessu eins og Bændasamtökin og aðrir, en ég ætla að leggja áherslu á Samband íslenskra sveitarfélaga í þessum ræðustól.

Varðandi þá vinnu sem mun síðar fara í gang, þ.e. ef skipuð verður nefnd til að fara yfir vatnalögin, tel ég eðlilegt að þessir aðilar ásamt Bændasamtökunum ekki síst, eigi fulltrúa í þeirri nefnd þar sem um er að ræða mjög mikilvægan rétt, hvort sem við köllum hann eignarrétt, nýtingarrétt eða annað, á hlutum sem fylgja yfirleitt jörðum og jarðnæði.

Þá hef ég komið því á framfæri. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þetta sé skýrt; leyfisveitingarhlutverk Orkustofnunar til viðbótar og að Samband íslenskra sveitarfélaga komi að reglugerðarvinnunni.

Í nefndarálitinu er farið býsna vel yfir söguna og breytingartillögurnar sem gerðar eru. Eins og fram kom í flutningsræðu hv. formanns nefndarinnar er í raun verið að uppfæra lögin frá 1923. Þau hafa reynst vel. Það er jákvæð skilgreining á vatni í þessum lögum þar sem talið er upp það sem leyft er. Að mínu viti er ekki gengið á eignarrétt með nokkrum hætti í þessum lögum. Verið er að skýra forgangsröðun til nýtingar og annað. Það er í rauninni allt til bóta.

Í nefndarálitinu kemur fram að það sé í samræmi við markmið frumvarpsins að leggja ekki til breytingar á inntaki laganna sem ég nefndi en það er hins vegar sett inn markmiðsákvæði sem ég held að sé til bóta. Sett er ákvæði í lögin í upphafi og skýrt hvert markmið laganna sé. Það er mikilvægt að mínu viti að skýra það strax í upphafi. Það kemur fram að verið er að huga að skynsamlegri nýtingu vatnsauðlindarinnar án þess að skerða réttindi þeirra sem kunna að eiga einhvern eignarrétt eða slíkt.

Oft og tíðum er togast á um orðalag í nefndum. Ég minnist þess að við veltum aðeins fyrir okkur hvort það ætti að standa að eitthvað væri heimilt eða að eitthvað væri gerlegt. Það er vitanlega svolítill munur á því hvort verið er að heimila nýtingu eða breytingar eða annað slíkt en það sem er mögulegt að gera. Ég get fallist á að við notum orðið heimilt í 3. gr. frumvarpsins.

Það er líka mikilvægt að nefna að í 9. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um minni háttar vötn kemur fram, með leyfi forseta, í nefndaráliti:

„Samkvæmt ákvæðinu er landeiganda óheimilt að spilla slíkum landsvæðum“ — þá er átt við minni háttar vötn — „nema það sé nauðsynlegt til varnar því landi eða landsnytjum að fengnu leyfi Orkustofnunar. Fram kom hjá umsagnaraðila að slíkt leyfi kynni að stangast á við 37. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, þar sem kveðið er á um sérstaka vernd tiltekinna vistkerfa.“

Nefndin áréttar að vatnalög breyta ekki þeim leyfum sem nauðsynleg eru samkvæmt öðrum lögum. Það er mikilvægt að þessi lög eru ekki sett fram til þess að taka yfir önnur lög sem gilda t.d. náttúruverndarlög, skipulagslög, mannvirkjalög og þess háttar, þannig að það sé á hreinu.

Þá er líka mikilvægt að árétta að gildissvið þessara laga nær til yfirborðsvatns, ekki grunnvatns. Inn í þessa umræðu eða orð koma áhyggjur sveitarfélaganna m.a. út af vatnsveitu. Talin var ástæða til að árétta að önnur lög gilda um grunnvatn sem oftast — við skulum orða það þannig — er nýtt til vatnsveitna. Það eru vitanlega dæmi um að menn noti yfirborðsvatn til þess að bjarga sér, en grunnvatn er nú það sem yfirleitt er notað til vatnsveitna. Forgangur vatnsveitna sveitarfélaga til nýtingar á grunnvatni er tryggður í öðrum lögum, þ.e. lögum um rannsóknir og nýtingu.

Síðan var eitt mál sem töluvert var fjallað um, það er almannaréttur til sunds og baða. Það kann að virka mjög léttvægt en getur skipt verulegu máli. Við höfum vitanlega alls konar skoðanir á því hvað er eðlilegt þegar kemur að því að við eða einhverjir aðrir stinga sér til sunds í vatni eða á eða nýta vatn á einhvern hátt. Það er mjög mikilvægt að tekið sé tillit til þess að það eru töluvert mikil verðmæti falin í því að selja aðgang að ám og vötnum, veiðileyfum eða í annars konar nýtingu á vatni. Ég held að því sé mætt ágætlega hér. Því er eðlilegt að það séu einhver takmörk á að hægt sé að spilla eða skemma þá atvinnu sem hugsanlega hlýst af því eða að eyðileggja sölu á veiðileyfum í á eða einhverju þess háttar. Það skiptir allt máli.

Ég held að þarna sé farinn ágætis millivegur. Ég hefði persónulega viljað sjá það orðað öðruvísi í frumvarpinu en við mætumst þarna á miðri leið til þess að geta klárað þetta mál.

Það er líka nauðsynlegt að nefna að þegar rætt er um að veita tímabundinn afnotarétt af vatnsréttindum töldum við rétt að hrófla ekki við þeirri skilgreiningu sem er í lögum í dag um 65 ára rétt þar sem ekki er búið að fara í gegnum hvaða framtíðarsýn við viljum hafa á þeim hlutum. Hins vegar er alveg ljóst að verði því breytt mun verða vísað til þessara laga varðandi þá breytingu.

Í kaflanum um vatnsnotkun til heimilis- og búsþarfa og þess háttar eru nokkur atriði sem vikið er að í nefndarálitinu. Þar er mikilvægt fyrir eiganda landeignar að geta réttlætt það og sýnt fram á að hann þurfi að fá vatn til sín hafi hann rétt til þess. Það er ítrekað hvernig það skuli gert, þ.e. þannig að það valdi ekki öðrum tjóni.

Aðeins var rætt um stjórnsýsluna í kringum framkvæmdir, mannvirkjagerð og ýmislegt þess háttar. Ég get tekið undir þau orð að það er mikilvægt að við horfum til þess að ferlið sé skilvirkt, ef við getum stytt tímafrest og ferla er það kostur að mínu viti. Ég vil líka árétta eins og svo oft áður að það þarf að gera það þannig að ekki sé kastað til höndum við vinnuna, þ.e. að vel sé staðið að umhverfismati og öðru slíku samt sem áður, að ekki sé gefinn afsláttur varðandi náttúruna eða umgengni um hana.

Í kaflanum um stjórnsýslu í nefndarálitinu kemur fram að meginstjórnsýsla vatnamála sé hjá Orkustofnun. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Eftir sem áður eru framkvæmdir í og við vötn háðar leyfum og eftir atvikum eftirliti samkvæmt t.d. skipulagslögum, mannvirkjalögum og lögum um lax- og silungsveiði og þar með aðkomu viðkomandi stjórnvalda.“

Það er sett inn til þess að ítreka að það er ekki hugmyndin í þessum lögum að þær taki yfir önnur lög er lúta t.d. að skipulagsvaldi, valdi sveitarfélaga, náttúruverndarlögum eða öðru slíku.

Þá er áréttað í sama kafla um stjórnsýslu, sem einnig kom fram í áliti nokkurra umsagnaraðila, að lögin megi ekki verða heftandi, t.d. þegar bráðaviðgerð þarf að eiga sér stað eða viðhald á mannvirki er lýtur að þessum lögum, þarf ekki að fara í langt ferli. Niðurstaðan var í rauninni sú að taka skýrt það fram að þetta eigi ekki við þær framkvæmdir sem þegar er leyfi fyrir eða sem rúmast innan ákveðinna leyfa og ákveðinnar stærðar og þess háttar. Rafmagnsveita og vatnsveita þurfa því t.d. ekki að fara í gegnum langt leyfisferli ef menn þurfa að leggja rafmagn eða vatn á íbúðasvæði og þess háttar.

Í breytingartillögunum kemur fram að iðnaðarráðherra sé heimilt að setja reglugerð o.s.frv. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að ég tel mjög mikilvægt að við gerð þeirra reglugerða sem setja á verði leitað samstarfs og samráðs. Nefndi ég þar sérstaklega Samband íslenskra sveitarfélaga og ítreka það hér.

Ég vil að öðru leyti segja að heildarmynd frumvarpsins nú er orðin vel ásættanleg og í rauninni vel til þess fallin til að ljúka þessum kafla eða tímabili í sögunni varðandi breytingar á lögum um vatnalög. Við eigum að snúa okkur að því núna, sem ég tel að flestir hafi verið sammála um við skoðun á þessum góða og aldna lagabálki, að vanda okkur í vinnunni fram undan og hleypa strax að aðilum sem hafa misjöfn sjónarmið og skoðanir. Við þurfum að gefa okkur tíma til að fá fram heildarmynd — þ.e. ef menn vilja ekki láta þessi lög gilda eins og þau eru í dag, það kann vel að vera að niðurstaðan verði sú að þetta sé bara nokkuð ásættanlegt — og vanda til verka og reyna að gera það í eins mikilli sátt og samlyndi og mögulegt er.