139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[15:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ætlunin er, ef við vitnum í hæstv. iðnaðarráðherra, að hefja vinnu við heildarúttekt, yfirferð á vatnalögum. Ég sagði í ræðu minni að ég teldi það í sjálfu sér hið ágætasta mál ef menn eru ekki sáttir við þau lög sem hér er verið að setja. Ég held þó að þau séu bara nokkuð góð.

Samfélagslegt eignarhald á vatni eða á auðlindum — við verðum að fara með gát hvort sem við tölum um samfélagslegt eignarhald, samfélagslegan rétt eða einkarétt. Ég er þeirrar skoðunar að eignar- og einkarétturinn sé býsna mikilvægur en það er samfélagslegi rétturinn að sjálfsögðu líka. Ég tel því að þegar hægt er að leita leiða til að samræma hvort tveggja sé það besti kosturinn. Hvort það var markmiðið þegar þessi orð voru sett á blað, ég get ekki svarað því fullkomlega en við verðum að leita leiða til að virða hvort tveggja og eflaust er hægt að finna leiðir í því, t.d. með því að tryggja ákveðinn aðgang eða umframrétt eða eitthvað þess háttar. Þetta er eitthvað sem þarf að fara yfir.

Ef við tölum um að samfélagið eigi að eiga allan vatnsrétt og slíkt er mjög líklegt að til þurfi að koma einhvers konar bætur til þeirra sem í gegnum tíðina hafa fengið jafnvel í gegnum dómsmál staðfestingu á því að sá eignarréttur sé til staðar. (Forseti hringir.) Það er því nokkuð flókið að ætla að afnema þetta með einhverjum hætti.