139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:08]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

[Kliður í þingsal.] Forseti.

(Forseti (UBK): Forseti vill biðja um hljóð í salnum.)

Ég þakka gott hljóð. Við höfum rætt hér með hléum frumvarp til laga um breytingu á vatnalögum, nr. 15/1923, með síðari breytingum. Þetta mál á sér í rauninni langan aðdraganda og hefur verið bitbein í pólitískri umræðu um allnokkra hríð. Þrátt fyrir mjög hatrammar deilur og mikil átök á undanförnum árum virðist vera að nást töluvert góð og breið samstaða um að í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og í nefndaráliti iðnaðarnefndar verði í engu hróflað við eignarrétti landeigenda á þeim vatnsréttindum sem fylgja sérhverri fasteign og réttarstaða þeirra landeigenda sé því hin sama og ákveðin var með setningu vatnalaganna árið 1923.

Þetta þýðir með öðrum orðum að vatnsréttindi á eignarlöndum eru óumdeilanlega viðurkennd sem réttmæt eign landeigenda og heyra ekki undir almannarétt eins og hin pólitíska umræða hefur snúist um allt frá árinu 2006 þegar aðför var hafin að þessu ákvæði vatnalaganna frá árinu 1923. Með því að lögfesta það sem kemur fram í 3. gr. þessa frumvarps felst í rauninni ákveðin viðurkenning á því að þau sjónarmið sem andstæð voru þeim sem vildu breytingar á gildandi ákvæðum frá lögunum 1923 eru víkjandi við þá tillögu sem hér liggur fyrir.

Við þá umræðu sem hefur farið fram í dag hef ég gert að umtalsefni nauðsyn þess að skýra hugtök og skilgreiningar sem koma fyrir í nýjum frumvörpum og lagasetningum í umhverfisrétti og er full ástæða til. Við erum að takast á um mikla hagsmuni hvernig svo sem á það er litið, hvort heldur um er að ræða hagsmuni einstaklinga, almennings í þessu landi, fyrirtækja eða samtaka. Ég hef nefnt nokkur orð en minni þó í því sambandi á umræðuna um lög um stjórn vatnamála þar sem var mikið af nýyrðum en í meðförum umhverfisnefndar voru gerðar verulegar breytingar á öllu orðfæri í því frumvarpi áður en það kom til afgreiðslu Alþingis.

Ég nefndi bara eitt lítið, fallegt orð sem í upphafi var „fors“ en er í nútímamálið foss. Það vantar sameiginlegan skilning á því þegar við horfum til þess hvernig og hvað á að virkja eða nýta til annars gagns en að horfa og njóta. Ég gerði áðan að umtalsefni orðið „vatnsleg“ sem er í orðskýringum í frumvarpinu í 1. gr. undir 26. lið. Þetta orð hefði ég gjarnan viljað hafa öðruvísi. Skýringin á því er sú að þetta sé lægð í landi sem vatn stendur í. Lönd sem flæðir yfir ofan háflæðis teljast ekki til vatnslegs. Þetta er bolli eða vatnsbotn og mér er spurn hvers vegna ekki var hægt að finna annað orð en það sem við erum vön að skírskoti til allt annars.

Öll þessi nýyrði ásamt því gríðarlega flókna regluverki sem búið er að setja upp af hálfu löggjafans um það sem lýtur að nýtingu náttúrunnar í okkar ágæta landi og flækjustigið í lagasetningunni valda því að yfirsýn er að tapast og einstaklingar sem vilja fóta sig í þessu þurfa að leggja á sig ómælda vinnu til að skilja einfaldlega út á hvað og eftir hvaða rásum reglan gengur þegar kemur að lagasetningu og vafamálum í þeim efnum sem lúta að náttúrunni og nýtingu hennar hér á landi.

Það er erfitt að horfa til þess vegna þess að Íslendingar hafa alla tíð, allt frá landnámi byggt afkomu sína og búsetu í landinu á því að nýta gögn og gæði til lands og sjávar. Undan því verður ekkert vikist að búseta á Íslandi er háð því að við nýtum kosti þeirrar náttúru sem við búum við í okkar ágæta landi. Ef við ætlum að gera það af skynsamlegu viti eigum við að sjálfsögðu að ganga varlega um þau gæði sem við erum sett yfir en að sama skapi verðum við að viðurkenna það að við þurfum að ganga á þau til þess að komast af þó svo að við reynum að gera það með sjálfbærum hætti.

Það er annað orð í orðskýringum sem ég hef athugasemdir við. Það er skilgreint í 10. tölulið 1. gr. — Nú fagna ég því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir gengur í salinn því að hún er mjög mikill áhugamaður um orð og skýra merkingu þeirra í umhverfislöggjöf á Íslandi. Það er þá vel við hæfi að forseti heyri það sem ég hef að segja um það orð sem tilgreint er í 1. gr. þessa frumvarps í gildissviði og orðskýringum: Það er orðið „iðja“. Þetta er gamalt og gott orð en hér er því lögð til ný merking sem er í þá veru að samkvæmt frumvarpinu sem liggur fyrir er iðja iðnaður annar en handverk. Í þessu sambandi vil ég minna þá sem mál mitt heyra á erindi úr heilræðavísum Hallgríms Péturssonar skálds sem allir þekkja og manni var kennt þegar maður var yngri. Ég er að vísu örlítið farinn að ryðga í þessu en það hljóðar svo:

Víst ávallt þeim vana halt:

vinna, lesa, iðja,

umfram allt þó ætíð skalt

elska Guð og biðja.

Ef orðið iðja í þessu sambandi, í vísu sem ort er einhvern tíma á 17. öld, tekur ekki til handverks finnst mér nútímaorðasmiðir vera farnir að færast of mikið í fang því að betur treysti ég Hallgrími Péturssyni í skilningi á íslenskt orð en þeim sem hafa upp á síðkastið verið að smíða frumvörp í hendur Alþingis á þeim sviðum sem taka til umhverfismála hér á landi.

Ég beini því þeim tilmælum til hv. iðnaðarnefndar að líta nú til þessara þátta. Þó svo að þeir virki í sjálfu samhenginu ekki ýkja stórir er það grundvallaratriði að passa upp á íslenskt mál í lagasetningu á Alþingi. Ef við viljum kappkosta það, eins og ég dreg ekkert í efa, að standa vörð um sjálfstæði okkar er grundvallaratriði að við höfum tök á íslenskri tungu. Við ættum í það minnsta að geta gert þá kröfu til okkar sjálfra að við skiljum það sem frá okkur kemur. Það er ástæðulaust að breyta merkingu góðra og gegnra orða við það verk að reyna að bæta og betrumbæta regluverk sem við búum til á hinu háa Alþingi.

Það er alveg ljóst að á síðustu áratugum hafa verið miklar breytingar í íslensku þjóðfélagi. Þekkingu fleygir fram, tækniframfarir hafa verið gríðarlega miklar og því tvennu fylgir að nýtingarmöguleikar á gögnum og gæðum landsins hafa aukist til mikilla muna og færni okkar til að umgangast landið af tilhlýðilegri virðingu með það að markmiði að skila því helst betra til afkomenda okkar hefur á allan hátt aukist.

Það er því skiljanlegt að við séum að gera nauðsynlegar breytingar á vatnalögum sem upphaflega voru samin og staðfest á Alþingi árið 1923 og eiga í rauninni rætur að rekja allt aftur til Jónsbókar og Grágásar eins og hefur komið fram fyrr í umræðunni. Grundvallaratriðið er þar að öll vötn skuli renna sem að fornu hafa runnið og lagt er út frá því og að virða eigi rétt þeirra sem vilja landinu ráða og þeirra sem hafa eignað sér land og eignast land. Eins og ég gat um er með lögfestingu 3. gr. í þessu frumvarpi verið að staðfesta þann skilning sem ríkt hefur frá alda öðli á þessu sviði og í þessu tilliti og fagna ég því mjög.

Eins og kemur fram í nefndaráliti iðnaðarnefndar er markmið laganna það að kveða á um rétt almennings til nýtingar vatns og greiðan aðgang að nægu og hreinu vatni en auk þess er líka tekið til vatnsréttinda landeigenda. Í frumvarpinu er reynt að samþætta nýtingar- og umhverfissjónarmið á sviði vatnamála, auka samvinnu stjórnvalda, þ.e. hinna opinberu stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, með það að markmiði að tryggja skynsamlega nýtingu þessarar auðlindar og vernda hana til lengri tíma með fyrirbyggjandi aðgerðum á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Til þess að annast um þetta er regluverkið sett upp og það er Orkustofnunar, annars vegar af hálfu ríkisvaldsins og hins vegar sveitarfélaganna, að halda utan um þessa þætti.

Ég hef iðulega við umræðu um þau frumvörp sem við höfum fengið til meðferðar í þessum efnum lagt ríka áherslu á það að við þurfum að tryggja að þær reglur sem við setjum í lög geti gengið eftir, þær séu auðskiljanlegar, auðlesnar og sem einfaldast að átta sig á þeim. Því miður hefur það ekki orðið. Ég hef stundum sett þá skoðun fram að við utanumhald og eftirlit með þeim þáttum sem lögunum er ætlað að hafa á hreinu lendi þær stofnanir sem um þessi mál eiga að sýsla dagsdaglega í vandræðum með að fylgja eftir hlutverki sínu og þeim verkefnum sem kveðið er á um í lögum. Í viðleitni til að halda andlitinu út af verkefni sem þeim er falið í lögum verður viðkvæðið oft og tíðum að búa verði til frekari lagasetningu og reglusetningu til leysa úr vandræðum sem hafa komið upp við að halda utan um það sem fyrir er. Menn reyna með öðrum orðum að moka yfir vandræði sín.

Ég óttast að við séum komin á það stig að yfirsýnin yfir þessa hluti hafi tapast, þetta er orðið flókið og gríðarlega yfirgripsmikið. Um það held ég að allir geti verið sammála ef þeir lesa þær umsagnir sem við höfum fengið um þau frumvörp sem lögð hafa verið fram. Raunar á það við um þetta frumvarp að nokkru leyti líka varðandi hlutverk Orkustofnunar. Ég held að ég minnist þess með réttu að þrjú frumvörp hafa komið á síðustu vikum eða undir lok þessa þings á borð Alþingis sem lúta með einum eða öðrum hætti að verkefnum Umhverfisstofnunar. Við alla þá lagasetningu hafa umsagnir Umhverfisstofnunar verið á þá lund að hana skorti fjárveitingu eða getu til að takast á við þau verkefni sem henni er ætlað að taka yfir í viðkomandi frumvörpum. Engu að síður gengur þetta svona í gegn án þess að breytingar séu gerðar í stjórnsýslunni. Ég óttast að við séum komin dálítið langt á veg með að fela stjórnsýslustofnunum töluvert meiri verkefni en þær komast yfir að sinna og ég er þeirrar skoðunar mjög ákveðið að brýna nauðsyn beri til að einfalda þetta regluverk, gera það gegnsærra og fljótlegra til afgreiðslu en orðið er.

Við lentum í slíku nú síðast við löggildingu eða staðfestingu á Árósasamkomulaginu sem stefnir í að verði fullgilt við 3. umr. á yfirstandandi þingi. Í minnihlutaáliti með því máli, sem kemur frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í umhverfisnefnd, er skematísk mynd yfir það ferli sem framkvæmdaraðili þarf að fara við tiltekin verkefni sem heyra undir þau lög sem við höfum sett um þessi mál. Það er gríðarlega flókin mynd og flókið ferli og ég leyfi mér að fullyrða að það eru ekki margir einstaklingar sem hafa yfirsýn yfir það ferli allt og því síður munu allar þær stofnanir sem þessum málum tengjast hafa færi til að bregðast við á réttum tíma eins og raun ber vitni þegar við horfum til þeirra úrskurða sem fallið hafa í kærumálum, hjá hvorri tveggja úrskurðarnefnd um byggingar- og skipulagsmál og úrskurðarnefnd um hollustuhætti. Þar eru menn mjög á eftir og við erum sífellt að bæta í.

Það sem ég vil vekja athygli á undir lok máls míns eru þær athugasemdir sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert við það frumvarp sem nú liggur fyrir. Í umsögn sinni við frumvarpið lagði Samband íslenskra sveitarfélaga til að það yrði ekki staðfest eins og það lá fyrir. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman athugasemdir og viðbrögð við breytingartillögum iðnaðarnefndar varðandi vatnalagafrumvarpið og er þar flest til bóta en gengur þó að mínu mati ekki nægilega langt. Það sem helst steytir á er hve verkefni sveitarfélaga skarast að því sem lýtur að leyfisveitingarhlutverki þeirra samkvæmt skipulagslögum og mannvirkjalögum sem Alþingi er tiltölulega nýlega búið að fela sveitarfélögunum að annast um. Það sem skarast er nánar tiltekið annars vegar leyfisveitingarhlutverk sveitarfélaganna samkvæmt þeim lögum sem voru sett á síðasta þingi og hins vegar það hlutverk sem Orkustofnun á að verða falið í því frumvarpi sem hér liggur fyrir ásamt breytingartillögum iðnaðarnefndar. Það er mjög mikilvægt, þ.e. að því gefnu að frumvarpið gangi svona fram og iðnaðarnefnd breyti því ekki að teknu tilliti til þeirra athugasemda sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert, að við setningu reglugerðar um þessi mál sé reynt að vinna gegn þeirri skörun sem hér um ræðir.

Það er nauðsynlegt að tekið verði fram að sú sérregla sem kemur m.a. fram í 5. mgr. 79. gr., um að líta skuli svo á að Orkustofnun geri ekki athugasemd við fyrirhugaðar framkvæmdir ef hún svarar ekki tilkynningu innan fjögurra vikna, hafi engin áhrif á leyfisskyldu framkvæmda samkvæmt skipulags- eða mannvirkjalögum. Þetta er grundvallaratriði og meðan ekki er tekið á því ásamt öðrum þáttum sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagt fram er nauðsynlegt að undirstrika það hér að við reglugerðarsmíðina verði að kalla Samband íslenskra sveitarfélaga að því borði ásamt Orkustofnun til að eyða misskilningi, koma í veg fyrir tafir, koma í veg fyrir að hægt verði að skjóta sér á bak við að þarna sé óskýrt orðalag o.s.frv. sem gerir ekkert annað en að ergja alla. Meginatriðið er að það veldur skaða öllum þeim sem þessi lög sækja og álit mitt er það að við Íslendingar höfum ekki efni til þess að búa svo um hnútana í stjórnsýslunni að til verði óþarfa tafir og flækjur sem standa í vegi þess að þjóðþrifamál geti gengið fram.