139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:28]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ágæta yfirferð yfir þessi mál. Þar sem hv. þingmaður situr í umhverfisnefnd og hefur þar fyrir utan víðtæka reynslu af sveitarstjórnarmálum langar mig aðeins að dýpka þá umræðu sem hann endaði ræðu sína á. Við erum nýlega búin að samþykkja ný skipulagslög þar sem menn hafa verið að skilgreina upp á nýtt verksvið og valdsvið sveitarfélaganna hvað varðar leyfisveitingar, eins og framkvæmdarleyfi og byggingarleyfi og annað í þeim dúr. Hv. þingmaður kom inn á að í þessum lögum er fjallað um að þar hafi Orkustofnun valdsvið en þegar maður les umsagnir um frumvarpið frá Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun sér maður að þessar ríkisstofnanir eru farnar að togast svolítið á. Maður veltir fyrir sér hver verði þá staða sveitarfélaganna í raun eða hver eigi að skera úr um þessi mál.

Sú leið sem nefndin velur er að lýsa því yfir að önnur lög gildi jafnframt. Hv. þingmaðurinn nefndi það að nauðsynlegt væri við reglugerðarsmíði að haft yrði náið samráð við mismunandi stofnanir og sveitarfélögin ekki síst. Telur hann að það sé í raun og veru nægilegt? Þegar ég skoðaði þetta undanfarinn klukkutíma hafði ég það á tilfinningunni að þarna gæti skapast óvissa sem endaði þá fyrir dómstólum eða ég veit ekki hver ætti að skera úr um málið. Er það að mati þingmannsins nægileg yfirlýsing til að þetta verði ásættanlegt?