139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:30]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég svara þessu í sem skemmstu máli: Nei, það væri æskilegra að skýra þetta miklu betur þannig að við sætum ekki uppi með þau vafamál sem hafa komið fram í umsögnum Sambands íslenskra sveitarfélaga, Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar.

Ég met það hins vegar svo miðað við stöðu málsins að það muni ná fram að ganga. Ef ég á að vera fullkomlega heiðarlegur hef ég ekki trú á því að á þeim skamma tíma sem eftir lifir þessa þings muni menn setjast yfir tillögu að lagabreytingu til að eyða þessari óvissu. Þess vegna hef ég lagt áherslu á það að á grunni þeirrar reglugerðar sem sett verður og verður að setja um þessi mál komi þær stjórnsýslueiningar sem eiga að sýsla með þennan málaflokk saman að því borði og þar muni menn einbeita sér að því að draga úr þeirri skörun sem þessu fylgir og skýra hlutverk og verkefni hvers aðila um sig.

Það er af illri nauðsyn sem maður ýtir á þetta. Betra hefði verið að skýra þetta í lagatextanum þannig að hver þessara þriggja aðila gæti einfaldlega gengið að sínu verksviði skýru og kláru en svo virðist ekki vera og þess vegna er sú áhersla sem ég hef lagt á að þetta verði gert í reglugerð afar mikilvæg.

Ég tek undir með iðnaðarnefndarmönnum að það er mjög mikils virði að fá botn í deilumálið sem verið hefur frá árinu 2006 um vatnalögin. Ég fagna því að það verði leitt í lög og treysti því að aðra agnúa á málinu verði hægt að leiða til lykta með sameiginlegri vinnu.