139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[18:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Norðaust., Birki Jóni Jónssyni, fyrir þetta svar. Hann vitnaði til þess að í umræðunni um hið fyrra mál hefði stjórnarandstaðan brýnt nokkuð raustina og farið mikinn í þessum ræðustóli. Ég ætla ekki að sverja það af mér að það hafi ekki einhvern tíma hent mig að brýna nokkuð raustina í þessum ræðustóli, en það er ekki tilefni til þess í þessu máli. Þetta mál er þess eðlis að um það er að skapast prýðilegt samkomulag sem að mínu mati er á margan hátt afrek. Þeir sem eiga hlut að því máli, hvort sem það eru menn úr ríkisstjórninni eða forustu hv. iðnaðarnefndar eða bara Alþingi almennt, sem er nú að búa sig undir að taka ákvörðun í þessu stóra máli í prýðilegri sátt, eiga auðvitað heiður skilið.

Ég hef hins vegar verið nokkuð að velta því fyrir mér undir þessari umræðu sem hefur staðið nokkuð lengi hvernig hún blasi við okkur. Ég hygg að eitt af því sem við þingmenn eigum einmitt að gera, ekki síst í samkomulagsmálum eins og þessu, sé að ræða málin. Þetta er efnislega stórt og mikið mál, það varðar mikla hagsmuni sem snúa að landeigendum og líka réttinum til að hafa aðgang að vatni o.s.frv. Allt eru það málefni sem eru þess eðlis að þau þarf að ræða. Ég hygg að það sé alveg ómarksins vert fyrir okkur þingmenn að taka þátt í umræðu af þessu tagi þar sem menn ræðast ekki við í heitingum heldur miklu frekar til að velta málum upp.

Svo er líka mjög mikilvægt að svona mál fari í umræðu vegna þess að hættan við samkomulagsmál er auðvitað sú að menn skoði þau ekki gagnrýnum augum og þá slæðist í gegn einhver mistök sem ætlunin var alls ekki að gera sem hafa síðan afleiðingar sem ekki sáust fyrir. Ég fagna þessari umræðu (Forseti hringir.) og tel hana mjög brýna.