139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[18:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ánægjulegt að geta rætt mál sem sameinar okkur þvert á flokka og eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson benti réttilega á erum við að ræða mál sem prýðileg sátt er um. Er þar með sagt að ekki eigi að ræða það mál?

Ég ætla að taka undir það með hv. þingmanni að ein helsta gagnrýni á störf Alþingis á seinni árum hefur verið sú að mál sem samkomulag er um hafa jafnvel á einum degi verið afgreidd eins og á færibandi. Þar með er ákveðin hætta á að gagnrýnin umræða og málefnaleg, vil ég segja, fari ekki fram um mikilvæg mál eins og um breytingu á vatnalögum sem við ræðum nú.

Ég vil líka nefna það að þegar eitthvað óskýrt er í löggjöf sem kemur frá þinginu þá leitast dómstólar oft við að fletta upp í ræðum þingmanna til lögskýringar o.fl. til að sjá hvaða andi og hugmynd var í kringum viðkomandi lagasetningu. Það er náttúrlega ekki gott ef svo stórt frumvarp færi umræðulaust í gegnum þingið.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið, sem var í raun meðsvar, en það getur stundum gerst, við þurfum ekki alltaf að hnýta hver í annan í þessum sal.

Ég vil að lokum lýsa yfir ánægju með þessa umræðu. Málefnið er þess vert að hingað komi nokkrir þingmenn upp til að ræða þetta frumvarp, enda er um að ræða mikið hagsmunamál og vonandi löggjöf sem mun endast til næstu áratuga. Málið er stórt og viðamikið, ég mun styðja það og þakka nefndarmönnum í iðnaðarnefnd fyrir.