139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:14]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veitti því athygli að hv. þm. Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, notaði það orðalag að með þeirri breytingu að færa ákvörðunarvald um ráðuneyti frá Alþingi til ríkisstjórnar og forsætisráðherra væri verið að styrkja þingið. Hafi ég misskilið hv. þingmann bið ég hann að leiðrétta það, hafi ég ekki misskilið hann bið ég hann að skýra mál sitt nánar því að sú meginbreyting, róttækasta breytingin, sem felst í þessu frumvarpi felur það í sér að í staðinn fyrir að tekin sé ákvörðun um það hér á Alþingi — eftir þeim reglum sem við eigum að fylgja, um opnar umræður, formlega málsmeðferð og þess háttar, þ.e. að ráðuneytin verði ákveðin með þeim hætti — á að færa ákvörðunarvaldið til ríkisstjórnarinnar. Mér er gersamlega fyrirmunað að skilja hvernig verið er að styrkja Alþingi með slíkri tillögu.