139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einhver misskilningur á ferðinni hjá hv. þm. Róberti Marshall ef hann heldur að verið sé að taka upp þingræðisregluna með þessu frumvarpi. Þingræðisreglan hefur verið í gildi á Íslandi frá 1904 og um hana hefur ekki verið neinn ágreiningur. Það er alveg ljóst að engin ríkisstjórn situr á Íslandi né hefur setið nema hún styðjist annaðhvort við meiri hluta þingsins eða að minnsta kosti að meiri hluta þingsins sé tilbúinn að þola hana í embætti. Á því verður engin breyting með þessu frumvarpi. Það sem breytist hins vegar er að ákvörðunin um það hvaða ráðuneyti eru starfandi í landinu færist frá þinginu til ríkisstjórnar og fer þar með úr því formlega, lýðræðislega, opna og gagnsæja ferli sem þingmál fara í gegnum. Það er það sem breytist. Og ég minni hv. þm. Róbert Marshall á að þingið er ekki bara meiri hluti þingsins. Þó að meiri hluti þingsins geti í sínum þingflokkum rætt einhver mál, tekist á um einhver mál og komist að niðurstöðu um þau, er ekki þar með um að ræða þinglega meðferð, alls ekki.