139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina spurningu til formanns allsherjarnefndar í þá átt að hér í framsöguræðu sinni telur hann að verið sé að auka vald Alþingis með því að leggja fram þetta frumvarp, að taka vald Alþingis og setja það í Stjórnarráðið, og svo talar hann um það í sömu orðum að Alþingi þurfi að lýsa yfir vantrausti á ráðherra svo að hann víki. Þetta er hreint í hróplegri andstöðu við það sem er boðað í frumvarpinu þar sem boðað er algjört forsætisráðherraræði, raunverulega er það einn ráðherra sem ræður hvaða ráðherrar eru, hvað þeir eru margir, hvaða titil þeir bera og hvað ráðuneyti þeirra heita. Það er gert í ljósi þess að auka viðbragðsflýti stjórnsýslunnar. Þessu er ég algjörlega ósammála vegna þess að þarna er forsætisráðherra einum gefið vald til að leggja ráðherra niður, breyta til, leggja niður ráðuneyti, fækka í ráðuneytunum því að það er ekki skilgreint hvað ráðuneytin eiga að vera mörg í frumvarpinu. Mér finnst, frú forseti, hv. formaður allsherjarnefndar því miður tala út og suður.