139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef fylgst með íslenskri þjóðmálaumræðu í nokkuð langan tíma og mér hefur sýnst að formönnum stjórnmálaflokka, ekki síst í þeim flokki sem hv. þingmaður tilheyrir, hafi verið alveg fullfrjálst að gera breytingar á sínu ráðherraliði, hafi lagt til, stofnað og sameinað ráðuneyti án þess að vera í nokkrum vandræðum með að láta það fara í gegnum þingið eða að það færi einhvern veginn öðruvísi en að þeir formenn eða forustumenn þeirrar ríkisstjórnar legðu til, hvað þá heldur að ákvarðanir sem oddvitar ríkisstjórnar hér á árum áður, meðal annars í þeim flokki sem hv. þingmaður tilheyrir, hafi verið eitthvað sérstaklega færðar inn á þann vettvang sem við störfum á nú, hvað þá heldur inn á vettvang ríkisstjórnarinnar. Það hefur bara verið gríðarlegt forsætisráðherraræði. (VigH: Er hann enn með það?) Þarf einhver að velkjast í vafa um það? Erum við enn með Írak? Það eru bara nokkur ár frá því, hv. þingmaður, að það gekk yfir. Þarf nokkur að velkjast í vafa um að þar hafi verið um að ræða gríðarlegt forsætisráðherraræði? Kom sú ákvörðun til kasta þingsins á þeim tíma?