139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[20:24]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að hrósa hv. þm. Róberti Marshall fyrir að gera heiðarlega tilraun til að leggja línurnar í umræðunni og tryggja að ekki verði rætt um það sem stjórnarmeirihlutanum finnst mjög óþægilegt að sé rætt í tengslum við þetta frumvarp, þ.e. að þetta frumvarp er augljóslega lagt fram til höfuðs hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta er lengsta uppsagnarbréf sem nokkur maður hefur nokkurn tímann séð á Íslandi og þótt víðar væri leitað.

Það vita auðvitað allir til hvers refirnir eru skornir. Það hefur komið fram að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa mikinn áhuga á að losna við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úr ríkisstjórninni. Þetta veit hæstv. ráðherra líka vegna þess að hann hefur lýst andstöðu sinni við frumvarpið. Helsti stuðningsmaður hans í ríkisstjórninni, hæstv. innanríkisráðherra, styður hann í þeirri málaleitan. (Forseti hringir.) Ef málið er það að frumvarpið sé ekki til höfuðs hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Forseti hringir.) getur hv. þingmaður þá útskýrt fyrir mér (Forseti hringir.) hvers vegna hann er í andstöðu við þetta svokallaða stjórnarfrumvarp?