139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir um margt ágæta framsögu þótt það gætti ákveðinnar íhaldssemi í ræðu hans ef grannt var hlustað. Það er engu að síður ákveðinn veikleiki í málflutningi fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum, sem ég vil spyrja nánar út í. Ég heyri ekki betur en að hv. þingmaður sé í svolítilli mótsögn við sjálfan sig þegar hann talar annars vegar um tilflutning á valdi og hins vegar um að ekki sé verið að gera neina breytingu á þeirri þingræðisreglu sem verið hefur við lýði í áratugi, 100 ár, og verði eftir sem áður. Hvernig fær hv. þingmaður þetta til að koma heim og saman?

Ég vil líka leyfa mér að mótmæla því sem hv. þingmaður heldur fram um að þessu fylgi engin úttekt. Þvert á móti, það fylgir þessu allþykk úttekt og úttektir á afleiðingum óbreytts kerfis.