139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að svara fyrst því minna og síðara tók ég það fram að margt í undirbúningi málsins væri ágætt. Við lýstum hins vegar eftir því að metið yrði sérstaklega hvaða áhrif þær tilteknu breytingar, reyndar fjölmörgu breytingar, sem gerðar voru á árinu 2010, í fyrra, árið 2009, í hittiðfyrra, og árið 2007, fyrir einungis um fjórum árum, höfðu. Margt í umfjöllun og reyndar tilfinningum manna fyrir því sem er að gerast í Stjórnarráði Íslands byggist á einhverju sem er eldra en það og byggir á eldri reglum. Það er búið að breyta þessum reglum mjög mikið á skömmum tíma. Við vekjum bara athygli á því að það var ekki metið sérstaklega, en við drögum ekki í efa að alls konar vinna á sér stað.

Varðandi þingræðisreglu og valdframsal erum við að tala um tvær mismunandi greinar frumvarpsins, tvær mismunandi reglur. Í 1. gr. er verið að staðfesta reglu sem hefur verið í gildi, er í gildi og á að vera í gildi áfram. Í 2. gr. er fjallað um (Forseti hringir.) aðra reglu og þar er valdframsal ótvírætt.