139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri líka athugasemdir við þá gagnrýni sem fram kom í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar varðandi aðstoðarmenn. Ég held að það sé hreinlegra að ríkisstjórnin og ráðherrarnir hafi heimild til þess að ráða til sín pólitíska aðstoðarmenn vegna þess að þeir fara með ráðherrunum síðan úr ráðuneytunum. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um pólitískar ráðningar en ef við gefum okkur bara að þær hafi fylgt ákveðnum reglum um hæfi hafa engu að síður lífsskoðanir, lífssýn, heimssýn og lífsviðhorf sjálfstæðismanna legið til grundvallar þeim hæfisskilyrðum sem mótuð voru í 18 ár í stjórnsýslunni. Þá gef ég mér að ekki hafi verið um pólitískar ráðningar að ræða.

Hversu margt fólk sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð fyrir að ráða inn í stjórnsýsluna er þar enn eftir að Sjálfstæðisflokkurinn er farinn frá völdum? Í 12 ár lá lífsviðhorf og heimssýn framsóknarmanna til grundvallar í helmingi ráðuneytanna við ráðningar. (Gripið fram í.) Er þá ekki hreinlegra (Forseti hringir.) að ráðnir séu pólitískir aðstoðarmenn inn í ráðuneytin sem fari svo út úr ráðuneytunum með ráðherrunum? (Gripið fram í.)