139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sleppi því algjörlega að fara í einhvern skotgrafahernað eða orðaskak við hv. þm. Róbert Marshall, hvort sem er um valdatíð Sjálfstæðisflokksins eða valdatíð núverandi ríkisstjórnar eða annað. Það er rétt að það er alltaf ákveðin hætta á því að ráðningar inn í Stjórnarráðið eða inn í stofnanir sem í eðli sínu eru, a.m.k. að hluta til, pólitískar hafi einhvern pólitískan vinkil. Sú hætta er alltaf fyrir hendi. Við reynum með starfsmannalögum og ýmsum öðrum hætti að draga úr þessari hættu, við reynum það. Ég held að við eigum að fara slíkar leiðir, enda gerum við ekki athugasemdir við hæfnisnefndina sem fjallað er um í frumvarpinu, svo dæmi sé tekið. (Forseti hringir.) Ég held að fjölgun aðstoðarmanna taki ekki freistinguna frá pólitíkusum til að hafa áhrif á ráðningu annarra manna inn í (Forseti hringir.) Stjórnarráðið. Sú fjölgun getur alveg eins verið hrein viðbót.