139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að þetta er líklega gert til þess að auka sveigjanleika hjá Stjórnarráðinu og þá þeim valdhöfum sem ríkja hverju sinni. Eins og kemur fram í greinargerð byggist þetta frumvarp á miklum ótta og meðvirkni og hefur verið látið í það skína að um sé að ræða uppbyggingu stjórnsýslunnar eftir bankahrunið sem varð hér 2008, nú er komið árið 2011, sem stenst ekki nokkra skoðun að væri gert með þessum hætti vegna þess að þingið hefur eftirlitshlutverk með framkvæmdarvaldinu. Um leið og búið er að aftengja þá þætti að þingið þurfi að samþykkja ráðuneyti, ráðherra, nöfn á ráðuneytum og fjölda er hreinlega verið að fara langtum lengra í því að veikja Alþingi enn frekar. Miðað við efnisinnihald frumvarpsins og að það skuli eiga að byggja á hruninu er verið að fara kolranga leið. Hefðum við lært eitthvað af hruninu hefðum við fyrst og fremst styrkt löggjafann sjálfan, (Forseti hringir.) stofnunina sem við erum í í kvöld en ekki framkvæmdarvaldið.