139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi seinna andsvars þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að vera við þessa umræðu. Það var kallað eftir því í dag að hún yrði viðstödd og ég þakka fyrir að hæstv. forsætisráðherra skuli vera við umræðuna. Það þarf líka að þakka fyrir það sem vel er gert.

Í lokaorðum nefndarálits fulltrúa sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd er rætt um pólitíska samstöðu. Nú er þetta frumvarp ekki unnið með þeim hætti að reynt sé að ná um það pólitískri samstöðu þegar það er sett fram. (Gripið fram í: Jú, jú.) — Nei, það er ekki gert. Maður veltir fyrir sér þegar farið er fram með þessum hætti hvort næsta ríkisstjórn muni væntanlega fara í sömu vegferð, þ.e. í miklar breytingar á lögum um Stjórnarráð, til að laga þau að því sem hentar á þeim tíma í stað þess að reyna að ná breiðri samstöðu meðal þingmanna um ramma sem við viljum hafa heilt yfir fyrir framkvæmdarvaldið. (Forseti hringir.)