139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:44]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er raunverulegt andsvar og ekki „sammála-andsvar“ eins og stjórnarandstæðingar hafa búið til í þinginu á þessu kjörtímabili. Í því raunverulega andsvari vil ég í fyrsta lagi þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu (Gripið fram í: Raunverulega?) — raunverulega ræðu, já, að mörgu leyti — og spyrja hann út í þann punkt sem mér fannst kannski vera höfuðkjarni ræðu hans, þ.e. spurningin um hvort Alþingi eigi að ráða heitum og fjölda ráðuneyta. Aðrar athugasemdir voru kannski tæknilegri og meira matsmál. Það er gaman að ræða hina formlegu hluti og í fyrstu tímum í félagsfræði, lögfræði eða þjóðfélagsfræði veltir maður þeim fyrir sér, en telur hv. þingmaður að það sé svo í raun að undanfarin 20–25 ár hafi Alþingi haft áhrif á tillögur sem hér hafa verið fluttar um breytingu á ráðuneytum og ríkisstjórnin verið einhuga um?