139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:45]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þetta raunverulega andsvar frá raunverulegum hv. þingmanni. Já, ég tel að það skipti máli að mál séu tekin til umræðu og afgreidd á Alþingi, ég tel að það skipti máli miðað við núverandi þingmeirihluta og ég tel að það hafi skipt máli miðað við fyrri þingmeirihluta. Ég er ekki þeirrar skoðunar að að loknum þingkosningum eigi þingmeirihluti að koma saman og velja ríkisstjórn og fela henni öll völd. Ég tel að það skipti máli að mikilvægar ákvarðanir séu teknar með lögum af Alþingi og að ákvörðunarferlið eigi sér stað samkvæmt þeim formreglum sem við höfum í þinginu, þingsköpum, sem eiga að tryggja ákveðna, vonandi oft vandaða málsmeðferð og vonandi oft lýðræðislega umræðu þar sem fleiri sjónarmið komast að en bara ríkisstjórnarflokkanna.