139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:49]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Umræðurnar hér í kvöld hafa verið áhugaverðar, sérstaklega er áhugavert að sjá hversu mismunandi sýn menn hafa á málið. Það hefur komið fram bæði í ræðum framsögumanna og í andsvörum. Hér er lagt fram frumvarp til laga um að breyta Stjórnarráðinu á nýjan leik, mikil bók sem telur tæpar 140 síður. Það sem er athyglisvert við þetta frumvarp er að það er helst byggt á skýrslu sem er hér sem fylgiskjal með frumvarpinu, skýrslu sem forsætisráðuneytið lét vinna fyrir sig og heitir Samhent stjórnsýsla — skýrsla nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráð Íslands sem gefin var út 2010. Það vill þannig til, frú forseti, að í þeirri nefnd sem samdi þessa skýrslu sat fólk sem var handvalið af hæstv. forsætisráðherra. Því miður var ekki farin sú leið að taka meira tillit til skýrslu rannsóknarnefndar og skýrslu þingmannanefndarinnar sem starfaði hér vel og lengi heldur var farin sú leið að leita í kunningjasamfélagið og miða við skýrslu þar sem jafnvel eru pantaðar niðurstöður.

Hér var unnin alveg afskaplega góð vinna eins og ég sagði. Langtum meiri áhersla var lögð á að styrkja þyrfti Alþingi sjálft, bæði í þingmannaskýrslunni og eins skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það var jafnvel talið upphafið að því að hér hrundi allt að Alþingi hefði veikst svo mikið með árunum. Hér vantar bæði fjármagn og fagþekkingu og þegar allsherjarhrun verður hlýtur eitthvað að vera að löggjöfinni. Það var það sem gerðist hér á landi. Þegar EES-samningurinn var lögleiddur hér 1994 var ekki farið jafnhliða í að styrkja Alþingi faglega og fjárhagslega, eins og svo sannarlega hefði þurft að gera og kom líka heldur betur á daginn. Eins og allir vita varð hér heilt bankahrun og þær reglur sem bankarnir byggðu umhverfi sitt á byggðust á Evrópureglum sem við þurftum að lögleiða í gegnum EES-samninginn. Sú löggjöf var alls ekki nógu góð, annars hefði ekki orðið hér bankahrun.

Það er líka athyglisvert að hlutfall dómsmála hér á landi er mjög hátt miðað við í nágrannaríkjum okkar, t.d. eru sett lög á Alþingi sem brjóta hreinlega gegn stjórnarskrá. Nokkur þannig lög sleppa í gegn á Alþingi á hverju ári en til dæmis í Danmörku hefur það aðeins einu sinni gerst. Norðurlöndin hafa líka farið þá leið að styrkja löggjafarstofnanir sínar og hafa stofnað í kringum sín þing öflugar löggjafarskrifstofur sem fara yfir þau frumvörp sem koma inn í þingið, hvort sem það eru þingmannafrumvörp eða frumvörp frá ríkisstjórninni, og gera lagatæknilega úttekt á málunum áður en þau eru lögð fram. Hér erum við sífellt að karpa um lagatæknileg atriði og það er í miklum minni hluta mála sem þingmenn geta einbeitt sér að efnishlið frumvarpanna og rætt það sem raunverulega skiptir máli. Þetta er að, frú forseti.

Ég hef lagt fram frumvarp um lagaskrifstofu Alþingis til að styrkja þessa stofnun sem á að setja lögin með það að markmiði að fækka dómsmálum og að það yrði minna að gera hjá umboðsmanni Alþingis sem fer yfir lagasetningu hér á landi. Það frumvarp fær ekki hljómgrunn þótt allir innan húss hafi séð að það væri þjóðþrifamál að laga til. Viðbrögð hæstv. forsætisráðherra við því voru að stofna lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins. Það væri áhugavert að vita hvort lagaskrifstofa forsætisráðuneytisins hafi yfirfarið þetta frumvarp hér. Það væri sem dæmi fróðlegt að vita hvort fyrir liggur úrskurður lagaskrifstofu forsætisráðuneytisins um að þetta frumvarp standist almenn lög og stjórnarskrá. Mér er til efs að það geri vegna þess að um þrígreiningu ríkisvaldsins er kveðið skýrt á í 2. gr. stjórnarskrárinnar og ég fer yfir það í nefndaráliti mínu að það er hæpið að þetta frumvarp standist stjórnarskrá.

Eins og ég fór yfir í andsvari áðan byggist greinargerð með frumvarpi þessu mikið upp á hræðsluáróðri og meðvirkni, að þetta frumvarp hér sé lagt fram til að bregðast við hruninu. Svo er bara alls ekki, það eru að verða þrjú ár síðan hér hrundi allt og ef þetta er viðbragðsflýtir ríkisstjórnarinnar eru þetta ekki viðbrögð við hruninu.

Það kemur fram í fylgiskjalinu í þessari skýrslu, Samhent stjórnsýsla, að hér þurfi eitthvað að gera en viðbragðsflýtirinn, tæp þrjú ár, er ekki til að hrópa húrra fyrir. Við þingmenn höfum haft óteljandi tækifæri til að setja lög til að bregðast við og laga til í hinu opinbera kerfi sem ekki hefur gengið eftir, samanber frumvarp mitt um lagaskrifstofu Alþingis. Það er bara ekki vilji til þess. En nú er hrunið notað sem rök í þessu frumvarpi sem mér finnst afar einkennilegt. Áðan kom fram í máli formanns allsherjarnefndar, hv. þm. Róberts Marshalls, beiðni um að allir mundu nú sameinast um þetta frumvarp, allir yrðu mildir í orðalagi, allir yrðu sáttir við þetta og að hér yrðu ekki notuð gífuryrði.

Það er auðvelt að vera í ríkisstjórn og fara fram á svona lagað við stjórnarandstöðuna með það fyrir augun að hér eigi friður að svífa yfir vötnum. Það er bara því miður ekki svoleiðis, frú forseti, því að stjórnmálaflokkar eru til og fólk er í stjórnmálaflokkum vegna þess að það greinir á um lífsskoðanir og almenna stefnu í lífinu. Þess vegna eru stjórnmálaflokkar til. Sú mýta sem er búið að koma hér af stað síðasta árið eða tvö um að þetta Alþingi sé eitthvað grimmara eða harðara en önnur þing síðan 1944 er hreinn og tómur spuni. Ég bendi fólki á að líta til baka því að hér á árum áður voru heiftarleg átök á þingi og það sem við erum að fást við í dag er hreinn barnaleikur miðað við það. Ég nefndi það úr því að hv. þm. Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar, gerði það að umtalsefni að hér væru mikil átök.

Átökin hefðu getað verið langtum meiri því að ríkisstjórnin hefur komið með svo ótrúlega umdeild mál inn í þingið. Tvisvar sinnum var komið inn með vonlausa Icesave-samninga sem átti að hella yfir þjóðina, ríkisábyrgð upp á 700 milljarða. Það situr enginn stjórnarandstæðingur þegjandi undir slíku. Það er ekki nema von að það hvessi af og til þegar svona ofboðslegar kröfur eru settar á fámenna þjóð. Þetta heitir að hafa skoðanaskipti en ekki að innan dyra sé allt kolvitlaust.

Ég frábið mér þann spuna sem er verið að setja af stað um að þetta Alþingi sé eitthvað verra en önnur. Hér voru svo sem heiftarleg átök um ESB-málið en það er ekki nema von því að það er eitt af stærstu málunum sem við þurfum að horfa á til framtíðar. Evrópa stendur í björtu báli. Evran er að hrynja. Einn stjórnmálaflokkur gengur fram með það mál, aðrir stjórnmálaflokkar á Alþingi eru á móti því máli. Af hverju er verið að biðja um grið í þessum málum þegar skoðanaágreiningurinn er slíkur? Það er ekki hægt að fara fram með þessi mál öðruvísi en í ágreiningi.

Til að ljúka þessum kafla í ræðu minni langar mig til að minna á að ríkisstjórnin hefur nú ekki verið til þess að hrópa húrra fyrir varðandi það að fara fram með mál í sátt. Ríkisstjórnin hefur farið fram með nánast öll mál í ósátt. Stundum heldur maður að ríkisstjórnin sé að gera það til að beina sjónum annað eða jafnvel til að þreyta þingmenn. Ég veit það ekki. Vinnubrögð hæstv. forsætisráðherra, sem hefur setið rúm 30 ár á þingi, til að hafa sitt í gegn er að taka það á hnefanum og fara fram með mál í ósátt. Ég tek það fram að hæstv. forsætisráðherra situr í hliðarsal og hlustar á umræður í þessu máli, skárra væri það, þetta er barnið hennar.

Þegar átti að taka þetta mál út úr allsherjarnefnd um daginn og það var fellt gengu stjórnarliðar til liðs við stjórnarandstöðuna þannig að málið náðist ekki út úr nefnd. Þá fréttum við að hvesst hefði í Stjórnarráðinu. Það var farið í að gera breytingar og sá aðili sem setti sig á móti málinu náði sínum ýtrustu breytingum í gegn. Sá þingmaður er hv. þm. Þráinn Bertelsson. Ég sagði eftir að búið var að fella málið í allsherjarnefnd að hv. þm. Þráinn Bertelsson hefði sannarlega líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér, hann væri eiginlega varaforsætisráðherra því að í vikunni áður hafði hann hótað því að styðja ekki ríkisstjórnina vegna þess að ríkisstjórnin fann ekki 15 milljónir í Kvikmyndaskóla Íslands. Sumir menn eru valdameiri en aðrir og það er gott.

Hér kemur þetta fram á nýjan leik. Stjórnarráðsmál var rætt fyrir þinghlé í sumar og lagðar til veigamiklar breytingar á því sem gengu í gegn. Það var búið til nýtt velferðarráðuneyti og nýtt innanríkisráðuneyti en samkomulag var gert um að fresta því að stofna nýtt atvinnuvegaráðuneyti með sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins í eitt ráðuneyti. Á meðan ekki er búið að draga umsóknina að Evrópusambandinu til baka, leggja hana til hliðar eða senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, samanber tillögu frá mér um að leyfa þjóðinni að velja núna hvort eigi að halda áfram eða ekki, verðum við að standa vörð um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Það gerum við best með því að leyfa því ráðuneyti að starfa áfram. Hér er gerð önnur tilraun til að leggja niður hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Verði þetta frumvarp að lögum fær forsætisráðherra opna heimild til að gera raunverulega það sem henni sýnist vegna þess að mikil opin ákvæði eru í lögunum og mikið valdframsal til forsætisráðherra að haga málunum eins og henni hentar í Stjórnarráðinu.

Þegar síðasta stjórnarráðsfrumvarp var á dagskrá gerði ég grín að því að slíkt framsal til forsætisráðherra hefði bara ekki sést áður. Ég sagði þá að það mætti halda að hæstv. forsætisráðherra ætlaði að ríkja hér að minnsta kosti næstu 110 árin. Fyrir hrun var talað mikið um mikla einræðistilburði þeirra aðila sem fóru fyrir þáverandi ríkisstjórnarflokkum og þeim fundið allt til foráttu, sagt að þeir sýndu einræðistakta og væru að mylja undir sig völd sem þeir hefðu ekki. Hér kemur þetta svart á hvítu í frumvarpsformi, hreint og beint valdaafsal frá þinginu inn í forsætisráðuneytið. Meira að segja eiga ráðherrar ekki að heita neitt héðan í frá verði frumvarpið að lögum. Ráðuneytin eiga ekki að heita neitt verði það að lögum. Það er hreinlega verið að leggja til að það verði einn ríkisforsætisráðherra með aðstoðarráðherra sér við hlið sem getur deilt og drottnað, fært fram og til baka verkefni án þess að leggja það fyrir þingið, fært fram og til baka jafnvel ráðherra, skilað þeim ef svo ber undir, náð sér í nýja eða þá, eins og segir í frumvarpinu, meira að segja er hægt að færa verkefni á milli ráðuneyta. Ef einhver ráðherra hlýðnast ekki er hreinlega hægt að taka af honum ákveðin verksvið og færa til annarra ráðherra eða setja inn í hina svokölluðu ráðherranefnd.

Við munum hvað gerðist á vordögum þegar hæstv. utanríkisráðherra gekk freklega inn á svið hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með þær spurningar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var uppálagt að svara ESB. Hvað gerðist? Hæstv. utanríkisráðherra gekk án lagaheimildar beint inn á verksvið hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra — án þess að blikna. Svo var það að vísu dregið til baka. Þá hafði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra reyndar svarað bréfi Evrópusambandsins eftir bestu sannfæringu en utanríkisráðherra vildi fá svarið fyrst í sitt ráðuneyti. Mig minnir að það hafi endað með að samninganefndin hafi tekið að sér að svara þessu á sínum tíma. Þarna kristallast þær tillögur sem koma fram í frumvarpi þessu, hefði þetta frumvarp þá verið orðið að lögum hefði þetta verið leyfilegt. Þarna sést hversu mikið vald er falið í þessu frumvarpi og raunverulega hægt að byggja þetta mál á miklum hótunum. Ef einhver ráðherra hlýðir ekki er tekinn af honum sá réttur að fara með málaflokkinn. Við skulum alveg átta okkur á hvað þetta er. Þess vegna segi ég að með þessu frumvarpi sé verið að forsætisráðherravæða Stjórnarráðið.

Úr því að þetta frumvarp er komið fram með þessum hætti hef ég spurt mig þessarar spurningar: Af hverju er ekki hreinlega gengin brautin á enda? Í allsherjarnefnd spurði ég starfsmenn Stjórnarráðsins hversu margir einstaklingar ynnu við Stjórnarráðið allt. Þeir eru rétt rúmlega 500 talsins. Þá segi ég: Af hverju er þá bara ekki brautin gengin á enda og þetta sameinað í eina stofnun? Þetta þætti lítið fyrirtæki erlendis. Það næði því ekki einu sinni að vera meðalstórt. Af hverju ekki að ganga brautina til enda, sameina þessi ráðuneyti í eitt, hafa einn forsætisráðherra og hafa aðstoðarráðherra sem sér um ákveðna vel skilgreinda málaflokka? Það væri hægt að spara mikið ríkisfé ef sú leið yrði farin. Það eru núna tíu ráðuneytisstjórar. Ég veit ekki hvað skrifstofustjórar eru margir en það væri hægt að spara mikið fé. Samkvæmt fjárlögum 2010 er rekstur ráðuneytanna einn og sér rúmir 6 milljarðar en rekstur Alþingis er 1 milljarður. Ef við færum þá leið að sameina ráðuneytin í eina stofnun gæti ég trúað að við gætum hæglega sparað helming.

Þetta er nokkuð sem ríkisstjórnin ætti að hugsa um fyrst lagt er til að fara leiðina hálfa. Það get ég sagt að ég væri alveg opin fyrir þessu. Ef það er verið að tala um tiltekt í ríkisrekstri verður á einhvern hátt að draga saman hið opinbera.

Hér hefur mikið verið rætt um þingræðisregluna. Mér finnst gæta misskilnings um hana hjá hv. formanni allsherjarnefndar sem gengur nú í salinn. Það komu fram lagabreytingartillögur hér í kvöld þegar umræður hófust og hv. formaður allsherjarnefndar var búinn að lesa minnihlutaálit mitt og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd. Það er eins og ekki sé heldur gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að hér geti starfað minnihlutastjórnir. Auðvitað höfum við litla sögu af minnihlutastjórnum á Íslandi en þetta er algengasta stjórnarformið á Norðurlöndunum. Það er jafnvel fullyrt að væri hér hefð fyrir minnihlutastjórnum eins og tíðkast á Norðurlöndunum hefði aldrei orðið hér hrun. Við sjáum alveg hvað það þýðir að ríkisstjórn hangi hér á eins manns meiri hluta. Það þarf að fara í samningaviðræður við stjórnarandstöðuna. Auðvitað kemur langtum skynsamlegri niðurstaða úr þannig samningaviðræðum en þegar sterkur meiri hluti keyrir mál í gegnum þingið og getur gert nánast hvað sem er. Það sáum við til dæmis í Icesave-deilunni. Þar var málið keyrt í gegnum Alþingi á meirihlutaatkvæðum ríkisstjórnarflokkanna en hefði verið hér minnihlutastjórn hefði þurft að semja um málið. Þá verða málin langtum betri, ná meiri þroska áður en þau eru keyrð í gegnum þingið. Þetta þurfum við líka að skoða í framtíðinni.

Ég hef farið yfir stöðu Alþingis og ætla svo sem ekki að fara meira yfir hana. Mér finnst dapurlegt að ríkisstjórnin skuli ekki standa betur vörð um Alþingi sjálft því að hingað eru kjörnir 63 þingmenn og héðan sprettur vald framkvæmdarvaldsins, úr þessum 63 manna hópi. Þess vegna ætti öllum þingmönnum að vera kappsmál að standa faglegan og fjárhagslegan vörð um Alþingi sjálft. Ef lagasetningin héðan er ekki góð er allt annað bilað. Það smitar frá sér út í alla taugaenda stjórnkerfisins.

Það hefur verið tekin ákvörðun um að styrkja enn frekar Stjórnarráðið. Síðan þessi ríkisstjórn tók við hefur allt kapp verið lagt á að styrkja stoðir framkvæmdarvaldsins, samanber það að lagaskrifstofa var opnuð í forsætisráðuneytinu í stað þess að styrkja stoðir Alþingis sjálfs.

Mig langar til að fara aðeins yfir það nefndarálit sem ég skilaði inn í dag þar sem ég fer í grófum dráttum yfir það sem ég finn að þessu frumvarpi. Mig langar til að benda á það aftur að breytingartillögur í einum 18 liðum liggja fyrir frá meiri hlutanum. Sýnir það okkur ekki hvað frumvörpin eru illa unnin og hrá þegar þau koma inn í þingið? Þegar breytingartillöguskjal upp á 18 töluliði kemur við það frumvarp sem hæstv. forsætisráðherra og hv. formaður allsherjarnefndar segja að sé mjög vel unnið er eitthvað að frumvarpsgerðinni. Við verðum að horfast í augu við það að frumvörpin sem koma inn í Alþingi eru ekki nógu vel unnin.

Ég fer betur yfir það þegar ég hef farið yfir nefndarálit mitt. Allar þær breytingartillögur sem koma með frumvörpum ríkisstjórnarinnar eftir umræður eru mjög umhugsunarverðar, oft og tíðum efnislegar breytingar. Þessir ríkisstjórnarflokkar eiga til dæmis mjög erfitt með að taka ráðgjöf sérfræðinga sem koma fyrir nefndirnar. Ég sit í tveimur nefndum og hef horft upp á mikla togstreitu þegar jafnvel lagaprófessorar koma fyrir allsherjarnefnd og það er ekki hlustað á rök þeirra. Það gerðist til dæmis í stjórnlagaþingsmálinu þegar lagaprófessor eftir lagaprófessor kom fyrir allsherjarnefnd og ráðlagði að það ætti að kjósa upp á nýtt eða leggja málið til hliðar. Ríkisstjórnin hefur aldrei þurft að hlusta á sérfræðinga. Ríkisstjórnin hefur ekki þurft að hlusta á lagaprófessora. Ríkisstjórnin hefur ekki þurft að fara eftir úrskurðum Hæstaréttar. Og ríkisstjórnin, hæstv. forsætisráðherra þar í fararbroddi, hefur ekki þurft að hlusta á kærunefnd jafnréttismála. Hvernig er hægt að ætlast til þess að landsmenn fari að lögum þegar ríkisstjórnin hagar sér með þessum hætti sjálf? Ég bara spyr.

Þegar verið er að boða siðgæði og predika það að þetta frumvarp sé reist á hruninu og verði að fara í gegnum þingið af því að það hafi svo miklar lýðræðisumbætur í för með sér fyrir forsætisráðherra verður forsætisráðherra líka að sýna það góða fordæmi að fara eftir þeim úrskurðum sem embætti hennar og hún sem situr þar í fararbroddi eru dæmd til af Hæstarétti og úrskurðarnefnd jafnréttismála.

Virðulegi forseti. Nú ætla ég að fara lauslega yfir nefndarálit mitt um frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands og frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna heildarendurskoðunar á lögum um Stjórnarráð Íslands. Eins og ég fór yfir áðan skrifa ég undir það og er 2. minni hluti í þessu máli.

Það sem vekur fyrst athygli mína og ég ætla að fara yfir er að í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ekki skuli á hverjum tíma vera fleiri en tíu ráðherrar og að fjöldi ráðuneyta innan þeirra marka skuli ákveðinn með forsetaúrskurði, samanber 15. gr. stjórnarskrárinnar. Það sem gerðist á milli umræðna í þessu máli var að það kom breytingartillaga frá meiri hluta allsherjarnefndar þar sem þetta ákvæði var fellt út úr 2. gr. og lagt til að 1. mgr. 2. gr. orðaðist svo, með leyfi forseta:

„Stjórnarráð Íslands skiptist í ráðuneyti. Ráðuneyti eru skrifstofur ráðherra og æðstu stjórnvöld framkvæmdarvaldsins hvert á sínu málefnasviði. Ákveða skal fjölda ráðuneyta og heiti þeirra með forsetaúrskurði, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar, samkvæmt tillögu forsætisráðherra.“

Þarna er tekið út hámarksákvæðið og þessi breytingartillaga virðist alveg eins geta gengið út á að forsætisráðherra gæti stjórnað einn eða haft tvo aðstoðarráðherra með sér. Hann gæti haft 20 aðstoðarráðherra með sér. Það er ekki rökstutt í neinu hvers vegna þessu var breytt sem ég undrast mjög.

Mér var sagt það á göngunum í dag að þessu hefði verið breytt í þessa veru til að aðskilnaðurinn frá löggjafanum væri algjör og það ætti ekki að setja þetta inn í löggjöfina með hámarksfjölda ráðherra til að forsætisráðherra hefði algjörlega frjálsar hendur um það hvernig raðast mundi niður í ráðherraembætti. En löggjafinn er hér að framselja vald sitt til forsætisráðuneytisins á allan hátt.

Þá er ég búin að fara yfir þá hugsun sem er í fyrsta lið nefndarálits míns. Eins og ég fór yfir áðan má samkvæmt þessari breytingartillögu meiri hlutans allt eins álykta að forsætisráðherra væri einn í ríkisstjórn ásamt fjölda aðstoðarmanna því að hvorki er kveðið á um lágmarks- né hámarksfjölda ráðherra í ríkisstjórn.

Annar minni hluti varar eindregið við þessari breytingu sem skapar mikla óvissu og upplausn stjórnsýslunnar sem er bágborin eftir hringl ríkisstjórnarinnar með sameiningu ráðuneyta sem nú þegar hefur verið framkvæmd.

Það sem skiptir mestu máli í uppbyggingu lands og þjóðar eftir hörmungar eins og við gengum í gegnum árið 2008 þegar bankarnir hrundu er að skapa jafnvægi og festu enda má líkja ástandinu við nokkurs konar stíðsátök. Það verður að segjast eins og er, frú forseti, að þessi ríkisstjórn hefur ekki verið í því hlutverk sem til er ætlast af henni, að skapa hér jafnvægi og festu. Málin hafa verið sett fram í ófriði. Ríkisstjórnin hefur lagt sig í líma við að umbylta hér öllu kerfi. Ég nefni fiskveiðistjórnarkerfið og Stjórnarráðið. Það er eins og það sé á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að umbylta öllu í einu, eftirskjálftarnir eftir hrunið eru langtum verri vegna þess að ríkisstjórnin hefur tekið þessa stefnu í stað þess að hlúa að þjóðinni og atvinnuvegunum og skapa festu, þótt ekki væri nema í skattamálum, að hafa eitthvert akkeri til að stóla á.

Oft hef ég á tilfinningunni að vinstri velferðarríkisstjórnin hafi komist til valda og hugsað með sér: Nú erum við komin til valda. Nú er okkar tími kominn. Nú skulum við sýna fólki hvernig á að stjórna. Nú ætlum við að brjóta á bak aftur allt sem var vel gert á Íslandi og byggja upp á nýtt á okkar hátt.

Það er hægt að fara yfir nánast alla málaflokka sem snúa að innanlandsmálum, það hefur verið með þeim hætti að breyta ríkjandi ástandi, koma með nýjar leiðir, koma með vinstri leiðir, hækka skatta, skapa meira atvinnuleysi og sækja um aðild að Evrópusambandinu. Eins og einhver sagði á líklega að svelta okkur inn í Evrópusambandið.

Það sem hefur líka gerst með þessari kratavæðingu er að ríkisbáknið hefur þanist út undir handleiðslu Samfylkingarinnar í þau rúm fjögur ár sem hún hefur verið við völd. Það þekkjum við frá Evrópu. Hér er ekki lagt fram það frumvarp að ekki sé ákvæði í lögunum um að fjölga opinberum starfsmönnum. Hér er sett á stofn eftirlitsstofnun eftir eftirlitsstofnun og fjölgað alveg geysilega í opinbera geiranum. Ægilega mikil fjárútlát fylgja oft þessum frumvörpum sem eru hér lögleidd vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Ég fór yfir það í grein um daginn hver hliðaráhrif umsóknarinnar væru og var ég komin upp í fleiri tugi milljarða. Þetta er dulið, en þetta er líka það sem kratískan gengur út á, að skapa störf í opinbera geiranum. Það er mjög alvarlegt mál. Ég er ekki að tala um að það þurfi að segja upp opinberum starfsmönnum en það á að minnsta kosti að setja ráðningarbann á meðan hið versta gengur yfir í opinbera geiranum og alls ekki að flytja lagafrumvörp sem hafa það í för með sér að það þurfi að fjölga starfsmönnum á meðan ríkið er svo illa statt að það þarf að skera niður heilbrigðisþjónustu úti á landi og hér í Reykjavík. Það á alls ekki að fara þá leið.

Það besta við þetta er að flokkana, sem ríkisstjórnina skipa, greinir á um hvaða ráðuneyti eigi að sameina. Málefni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins eru mikilvægustu mál þjóðarinnar og þá horfi ég einkum til gjaldeyristekna sem sjávarútvegurinn skapar fyrir þjóðarbúið og matvælaöryggis þjóðarinnar. Því er það skylda okkar sem sitjum á Alþingi að standa vörð um sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, einkum í ljósi þess að nú liggur fyrir umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Eins og allir vita snúa tveir þyngstu kaflarnir að sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Þess vegna verðum við að standa vörð um þetta ráðuneyti, að því verði ekki rennt inn í nýtt stórt ráðuneyti þar sem þessir málaflokkar gætu týnst.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sagðist í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag, þegar ég spurði hvort hann ætlaði að greiða atkvæði á móti þessu frumvarpi, ætla að standa í lappirnar og það kæmi líklega í ljós en hann hefði greitt atkvæði á móti frumvarpinu við ríkisstjórnarborðið. Hann sagði að meðan þetta frumvarp breyttist ekki mundi hann ekki breyta um skoðun.

Hér kristallast ágreiningurinn í ríkisstjórninni því að hún virðist ætla að hanga á völdunum, sama hvað á gengur og sama hvað um landsmenn verður. Það eitt að halda völdum er markmið hjá ríkisstjórninni og halda Evrópusambandsumsókninni inni af hálfu Samfylkingarinnar og þeirra krata sem finna má í Vinstri grænum.

Ég hugsa að það sé mjög fátítt að ráðherrar séu á móti frumvörpum sem lögð eru fram við ríkisstjórnarborðið. Það gerðist líka í Evrópusambandsmálinu þegar þingsályktunartillagan var borin upp, þá var sami ráðherrann á móti því máli, fylgdi sannfæringu sinni alla leið og greiddi atkvæði á móti þingsályktunartillögunni í þinginu. Það verður því spennandi, frú forseti, að fylgjast með atkvæðagreiðslum um þetta frumvarp komist það inn í atkvæðagreiðsluferilinn.

Eins og ég fór lítillega inn á áðan voru í vor stofnuð tvö ný ráðuneyti, velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti, með sameiningu annarra ráðuneyta. Það er talið að sú ráðagerð hafi heppnast ágætlega, en samt hlaust lítill sparnaður af þessari sameiningu. Eins og farið hefur verið yfir í ræðum hefur verið mikið rót á ráðuneytunum og sífellt verið að skipta um nöfn með tilheyrandi kostnaði, m.a. vegna þess að það þarf að merkja húsin upp á nýtt og skipta um bréfsefni. Auðvitað hefur mikinn kostnað í för með sér að róta svona í stjórnsýslunni fram og til baka en þetta er nokkuð sem þessi ríkisstjórn notar til að sýna að hún geti stjórnað og geti breytt. Með þessari sameiningu verða til ægilega stór ráðuneyti. Það hefur líka komið fram að störfum fjölgaði við sameininguna á ráðuneytunum en fækkaði ekki eins og gera mætti ráð fyrir. Um leið og stofnanir eru sameinaðar ætti það að leiða af sér einhver samlegðaráhrif og fækkun starfa. Það er einkennilegt að störfum skyldi ekki hafa fækkað þegar velferðarráðuneytið var stofnað því að um áramótin síðustu fóru málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaga. En það gerðist ekki, þvert á móti fjölgaði opinberum starfsmönnum.

Það sem vekur athygli er að lítið samráð er haft við atvinnulífið um það sem snýr að þessu nýja atvinnuvegaráðuneyti. Það eru aðallega einhverjir embættismenn sem hittast og ráða ráðum sínum. Eftir þessa fundi liggja margar skýrslur og náttúrlega vinnustundir opinberra starfsmanna. Það er verið að sinna einhverju öðru en að byggja hér upp heimili og hjálpa fyrirtækjum. Það er sífellt verið á fundum til þess að ráða ráðum sínum með það fyrir augum að koma þessari Evrópusambandsumsókn af stað og svo einmitt að „víla og díla“ um það að leggja niður ráðuneyti og sameina önnur.

Ríkisstjórnin vinnur þannig að það er sífellt verið að hræra í pottunum eins og ég fór yfir áðan. Til að varpa ljósi á hvað ríkisstjórnin er óákveðin og hefur litla stefnufestu og náttúrulega enga framtíðarsýn, ekkert viðmið til að sigla eftir, stefna að og taka ákvarðanir um, voru til dæmis gerðar 193 lagabreytingar á síðasta vorþingi til að innleiða orðin „innanríkisráðuneyti“ og „innanríkisráðherra“. Nokkrum mánuðum síðar liggja fyrir sömu 193 lagabreytingarnar í sömu lögum til að leggja niður orðin „innanríkisráðuneyti“ og „innanríkisráðherra“. Svona er með lagasafnið allt. Ég hef ekki talið saman hversu oft þarf að breyta starfsheitum ráðuneyta og ráðherra í þeim bandormi sem nú liggur fyrir en mig minnir að lögin sem þarf að breyta séu hátt í 100. Þetta er án ábyrgðar, ég skoðaði þetta um daginn og man ekki alveg fjöldann. Það er verið að hringla með þetta fram og aftur.

Það þarf ekki að taka fram að þessar tillögur eru í hróplegu ósamræmi og algjörlega ósamrýmanlegar þeim lagabótum sem Alþingi hefur nýlega samþykkt og það fyrir orð forsætisráðherra. Sú vinna sem hefur farið fram um þessi stjórnarráðsmál er mikil sóun á mannafla Stjórnarráðsins og alþingismanna sjálfra. Það er umhugsunarvert að tíma Alþingis sé eytt í endalausar nafnabreytingar á ráðuneytum í stað þess að tekið sé á stórum og brýnum málum er varða heimili, fjölskyldur og atvinnu. Lagafrumvarpið er einnig í alvarlegu ósamræmi við það starf sem að undanförnu hefur verið unnið á skrifstofu forsætisráðherra eins og fyrr er vikið að. Þar hefur verið rætt um tillögur sem Alþingi hafði áður hafnað um að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti. Til að vinna því máli brautargengi og í samræmi við fyrirheit sem gefin voru alþingismönnum var farið í mjög náið samráðsferli við aðila innan atvinnulífsins og niðurstaðan var þar mjög á einn veg. Þeir sem tengjast sameiningarhugmyndum eru þeim andvígir. Um það vitna 17 fundargerðir og skýrslur forsætisráðuneytisins sem komu út fyrir örfáum dögum. Í stað þess að taka mið af niðurstöðu funda þessara er ráðist í miklu róttækari breytingu, að afnema öll ráðuneyti nema forsætisráðuneyti, og það samhliða vinnunni um sameiningu ráðuneyta. Með öðrum orðum er verið að forsætisráðherravæða Stjórnarráðið og færa löggjafarvaldið undir einn einstakling.

Þessi vinnubrögð eru dæmalaus. Verði frumvarp þetta að lögum hefur stjórnarmeirihlutinn markað nýja stefnu í löggjöf sem fer gegn 2. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, en þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Ekkert samráð var haft við þingflokka stjórnarandstöðunnar um frumvarpið og 2. minni hluta er til efs að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi haft nokkuð um málið að segja. Það kemur líklega í ljós í atkvæðagreiðslunni þegar þetta frumvarp kemur til atkvæðagreiðslu.

Það sem hefur almenn áhrif á lagabreytingu með þessu frumvarpi er að áhrif umræddrar lagabreytingar eru að færa vald frá Alþingi til forsætisráðherra sem gengur þvert gegn pólitískri umræðu og niðurstöðum, m.a. í opinberum skýrslum sem fram hafa komið frá bankahruni 2008. Lagabreytingin gerir íslenskt stjórnkerfi óskýrara og vinnur gegn gegnsæi. Þá er breytingin andstæð almennum reglum og gildandi lögum um sjálfstæði ráðherra þar sem forsætisráðherra getur einhliða fært verkefni frá einum ráðherra til annars.

Sem dæmi um áhrif lagabreytingar þessarar má nefna áform forsætisráðherra vorið 2007 um að færa Íbúðalánasjóð frá félagsmálaráðuneyti til fjármálaráðuneytis. Ef umrædd lög hefðu þá verið í gildi hefði andstaða þáverandi félagsmálaráðherra við tilflutninginn ekki dugað ein og sér til að koma í veg fyrir að þessari stærstu opinberu lánastofnun almennings hefði verið fórnað á altari einkavæðingar í aðdraganda bankahrunsins.

Um er að ræða mjög viðamiklar og afgerandi breytingar sem eðlilegt er að ræddar séu í fleiri þingnefndum en allsherjarnefnd. Við umfjöllun þingsins um miklu veigaminni breytingar á Stjórnarráðinu þegar sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti voru sameinuð sagði einn þingmanna, Árni Þór Sigurðsson, meðal annars, með leyfi forseta:

„Ég ætla að lokum, frú forseti, að segja það að mér finnst ófullnægjandi að allsherjarnefndin ein fjalli um þetta mál. Hér er um stórt mál að ræða sem snertir margar fagnefndir í þinginu. Mér finnst þess vegna nauðsynlegt að senda það jafnframt til skoðunar og umsagnar í einstökum fagnefndum. Ég mun leggja það formlega til við afgreiðslu málsins, þegar því verður vísað til nefndar, að það fari jafnframt til viðkomandi fagnefnda.“

Ekki er um neitt slíkt að ræða hér og málið hefur bara verið í allsherjarnefnd. Umrædd krafa á enn frekar við nú þar sem um svo veigamiklar breytingar er að ræða. Að lokum er rétt að minna á að áformin ganga þvert gegn þeim varnaðarorðum sem er að finna í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um foringjaræði og áhrifaleysi Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. 2. minni hluti bendir á að samkvæmt Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa sem forsætisráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og skrifstofa Alþingis gáfu út brjóta frumvörpin um breytingar á Stjórnarráðinu gegn öllum meginsjónarmiðum og viðmiðunum sem þar eru reifuð um vandaða frumvarpssmíð, hvorki meira né minna.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands er í átta þáttum. Við umfjöllun um málið fékk allsherjarnefnd umsagnir frá fjölda stofnana og samtaka og einnig komu gestir á fund nefndarinnar. Eftir umfjöllun allsherjarnefndar er greinilegt að frumvarpið er unnið í flýti, ekki hefur verið haft samráð við hagsmunaaðila og undirstofnanir og ekki hefur verið gerð fullnægjandi greining á kostnaðarauka vegna frumvarpsins eins og fyrr er rakið. Þá er málið tekið út í ágreiningi og ámælisvert er hvernig ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur milli funda sem voru fyrstu daga septembermánaðar beitt þrýstingi á stjórnarmeirihlutann til að fá málið tekið út úr nefndinni án þess að sátt væri um þá tilhögun eins og atkvæðagreiðsla í nefndinni 1. september sl. staðfesti.

Annar minni hluti bendir á gríðarlegt valdframsal löggjafans til forsætisráðherra og er það í raun mun víðtækara en látið er að liggja í athugasemdum frumvarpshöfunda.

Í III. kafla athugasemda við frumvarpið segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Af umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis má ráða að heimildir forsætisráðherra til að fela öðrum ráðherrum eða stjórnmálaleiðtogum hluta af valdi sínu eða ábyrgð sé takmörkuð. Í frumvarpinu er kveðið skýrar á um skipunar- og verkstjórnarvald forsætisráðherra sem forustumanns ríkisstjórnarinnar og skyldu hans til að hafa frumkvæði að því að samhæfa stefnu og aðgerðir þegar málefni og málefnasvið skarast, m.a. með skipun ráðherranefnda til að fjalla um einstök mál og málaflokka.“

Hér er rétt að benda á að umræddar breytingar skapa einnig möguleika á að forsætisráðherra færi allt vald, t.d. í efnahagsmálum, til fárra ráðherra. Eitt af því sem þáverandi stjórnarandstaða gagnrýndi við einkavæðingu bankanna, í upphafi aldarinnar, og við stjórnun þáverandi ríkisstjórnar var einmitt foringjaræði. Hér eru skapaðar sérstaklega heppilegar aðstæður til að styrkja foringjaræðið enn frekar. Enginn lærdómur hefur verið dreginn af reynslunni.

Þá er tilvísun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis frjálsleg, svo ekki sé meira sagt, þar sem einkanlega er fundið að því að umræður og samráð innan ríkisstjórnar sé markvisst en með því að færa meira vald til forsætisráðherra dragi það úr þörf á samráði.

Með breytingunni er dregið stórlega úr formfestu stjórnsýslu sem aftur dregur úr möguleikum á að draga mörk milli valdsviða ráðuneyta, eins og þó er einmitt talið mikilvægt. Rétt er samt að benda á að varnir gegn slíkum ágöllum stjórnsýslunnar eru minni í því fyrirkomulagi sem hér er boðað. Eins og fram kemur í skýrslu þingmannanefndar um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og sjálfri skýrslu rannsóknarnefndarinnar er formfesta stjórnsýslunnar mikilvægur þáttur í því að girða fyrir möguleika á geðþóttaákvörðunum. Enginn vafi er á að í stjórnmálasögu Íslands hafi geðþóttaákvarðanir komið við sögu á einhverjum tímum án þess að hér sé farið í að rekja um það dæmi. Sagan sýnir að hér sem annars staðar verður löggjafinn að vera á varðbergi.

Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um vald forsætisráðherra til að flytja málefni milli ráðuneyta. Það vald er núna alfarið í höndum Alþingis og við skipan ráðuneyta hafa þingflokkar stjórnarflokka nokkuð um það að segja hvaða ráðuneyti fellur til hvaða ráðherra. Með hinni nýju skipan sem boðuð er í þessu frumvarpi er vald óbreyttra ráðherra í þessum efnum óskýrara og þar með dregið úr hinu pólitíska valdi þingflokka. Með þessu fyrirkomulagi geta mál eða málaflokkar hæglega fallið milli skips og bryggju því að alla festu er verið að taka úr skipulagi málaflokkanna.

Þegar einstök málefni eru flutt frá einu ráðuneyti til annars, eins og getur um í 5. gr. frumvarpsins, skulu ólokin mál innan ráðuneytis flutt með og þeim lokið í nýju ráðuneyti. Greinin stuðlar vitaskuld að skilvirkni og hraða í ákvörðunum forsætisráðherra þegar málefni eru flutt milli ráðuneyta. En um leið getur þessi heimild stuðlað að gerræði í forustu ríkisstjórnarinnar þegar ágreiningur er um mál þar sem fyrirvaralítið og án samþykkis viðkomandi ráðherra er hægt að flytja mál frá einum ráðherra til annars. Þetta hefur í för með sér að líki forsætisráðherra og meiri hluta ríkisstjórnar ekki við afstöðu eins ráðherra til ákveðins málefnis getur forsætisráðherra fyrirvaralaust tekið málið af viðkomandi ráðherra og falið það öðrum sér þóknanlegri. Jafnvel þó að ekki yrðu almenn brögð að því að mál gengju svo langt má ætla að það eitt að forsætisráðherra hafi þetta vald tryggi honum stóraukin yfirráð yfir ráðherrum ríkisstjórnarinnar og dragi sjálfkrafa úr valdi og sjálfstæði einstakra ráðherra, einfaldlega vegna hræðslu við ákvarðanir forsætisráðherra.

Ákvæðið gengur þvert gegn þeim hugmyndum og reglum sem ríkt hafa til þessa. Svo viðurhlutamikil breyting í átt til aukinna valda forsætisráðherra getur vart eða ekki talist heppileg.

Ég ætla að nefna hér dæmi um hvað hefði getað gerst hefði þetta frumvarp verið orðið að lögum árið 2008. Við fall Glitnis það haust var farið alvarlega á svig við gildandi stjórnsýslu þegar sitjandi viðskiptaráðherra var haldið utan við ákvarðanatöku þvert á verkaskiptingu innan ríkisstjórnarinnar. Umrætt verklag er gagnrýnt í fjölda álitsgerða sem fram hafa komið um fall bankanna, þar á meðal í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Í stað þess að bregðast við því sem átti sér stað með skýrari verklagsreglum er það sem þá gerðist innan ríkisstjórnarinnar gert löglegt verði þetta frumvarp að lögum, að halda ráðherra fyrir utan verksvið sitt vegna geðþóttaákvarðana forsætisráðherra.

Í III. kafla frumvarpsins er staðfesting á því sem áður er vikið að og þar kemur meðal annars fram aukið boðvald forsætisráðherra yfir ráðherrum frá því sem nú er. Þannig er nú kveðið á um að reglugerðir skuli bornar upp á ríkisstjórnarfundum, samanber 6. gr. frumvarpsins, og auk þess að taka mál og flytja milli ráðuneyta getur forsætisráðherra sett einstök málefni undir ráðherranefnd, eins og segir í 9. gr., en slíkar nefndir lúta með óbeinum hætti forustu forsætisráðherra þar sem hann skipar nefndinni ritara, staðfestir fundargerðir nefndarinnar og setur henni reglur. Með sama hætti getur ákvæði 9. gr. um ráðherranefndir verið til þess fallið að draga úr valdi og forræði ráðherra yfir þeim málaflokki sem viðkomandi ráðherra er falinn og færa verkefnin undir fjölskipað stjórnvald. Þetta gengur með mjög afgerandi hætti gegn núgildandi túlkun stjórnarskrár um sjálfstæði ráðherra. Í reynd stuðlar breytingin að því að í landinu verði einn forsætis- eða yfirráðherra með ótilgreindan fjölda aðstoðarráðherra sem deila með sér verkefnum eftir ákvörðun forsætisráðherra. Einnig er rétt að benda á freklega heimild forsætisráðherra til að setja aðstoðarmönnum annarra ráðherra siðareglur sem styður forsætisráðherravæðingu frumvarpsins enn frekar. Þegar litið er til þess að aðstoðarmenn aðstoðarráðherra forsætisráðherra eru pólitískt skipaðir telur 2. minni hluti þetta mjög óeðlileg afskipti. Ekki er hægt að líta á þetta fyrirkomulag öðruvísi en svo að forsætisráðherra telji að allt vald sé í forsætisráðuneytinu og aðrir ráðherrar séu aðstoðarráðherrar forsætisráðherra og aðstoðarmenn annarra ráðherra heyri undir forsætisráðherra sjálfan. Það hefur líka komið fram á fundum allsherjarnefndar að meiri hlutinn lítur svo á að aðstoðarmenn ráðherra eigi að vera afar hreyfanlegir á milli ráðuneyta og komi upp vandamál í einu ráðuneyti sé hægt að flytja þessa aðstoðarmenn á milli í miklum mæli.

Þá tekur 2. minni hluti fram að breytingin sé líkleg til að gera stjórnsýslu landsins óskýrari en nú er þar sem ekki sést af lagatextum hvaða málefni tilheyra hvaða ráðherra og hvaða ráðuneyti. Gert er ráð fyrir að mæta þessum vanda með setningu neðanmálsgreina í rafræna útgáfu lagafrumvarpa en slíkt fyrirkomulag orkar tvímælis og væri nýjung í lagasetningu hér á landi.

Loks er rétt að vekja athygli á að með 21. gr. er dregið verulega úr rétti almennings til að sækja um störf sem verða til eða losna í Stjórnarráðinu þar sem rýmkaðar eru heimildir til að flytja starfsmenn og embættismenn milli starfa. Afar gagnrýnisvert er að lagt sé til í frumvarpinu að fjölga aðstoðarmönnum ráðherra í 20 og enn gagnrýnisverðara er að meiri hlutinn leggur til enn frekari fjölgun í breytingartillögu, þ.e. upp í 23, þegar gríðarlegur niðurskurður á sér til dæmis stað í heilbrigðis- og velferðarþjónustu. Þarna er með lagasetningu verið að styrkja stoðir framkvæmdarvaldsins á kostnað Alþingis, sjálfs löggjafans. 2. minni hluti bendir á að þetta sé hættuleg þróun þar sem rekstur Stjórnarráðsins er nú rúmlega sex sinnum dýrari en Alþingis.

Vegna þeirrar aðstoðarmannavæðingar sem lögð er til í frumvarpi þessu minni ég líka á að það er mjög stutt síðan aðstoðarmenn landsbyggðarþingmanna voru skornir niður og það var í tíð þessarar ríkisstjórnar sem leyfir sér nú að fara fram með þessa fjölgun á aðstoðarmönnum innan framkvæmdarvaldsins. Það er athyglisvert, það er markvisst verið að skera Alþingi niður.

Forsætisráðuneytið gaf í maímánuði 2010 út skýrslu um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar kemur skýrt fram sú skoðun að skortur sé á afgerandi forustu innan ríkisstjórnarinnar og leidd að því rök. Þannig segir orðrétt í umræddri skýrslu:

„Að bæta þurfi vinnubrögð og starfsaðstöðu hinnar pólitísku forustu framkvæmdarvaldsins. Þannig þurfi að skerpa á forustuhlutverki forsætisráðherra í ríkisstjórn og skapa markvissari umgjörð í lögum og eftir atvikum í stjórnarskrá, og skapa þar markvissari umgjörð um ríkisstjórnarfundi og ráðherranefndir. Einnig þurfi að huga að styrkingu hinnar pólitísku skrifstofu ráðuneytanna.“

Sömu hugmyndir koma fram í annarri skýrslu forsætisráðuneytisins sem kom út síðar í sama mánuði og fjallar um endurskoðun laga um Stjórnarráðið og að síðustu í árslok 2010 í skýrslunni Samhent stjórnsýsla. Skörun er í vali einstaklinga í öllum þessum vinnuhópum þar sem sami maður var starfsmaður nefndar um endurskoðun laga um Stjórnarráðið og jafnframt formaður nefndar sem samdi skýrsluna Samhent stjórnsýsla. Enn fremur var formaður nefndar um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis nefndarmaður í nefnd um endurskoðun laga um Stjórnarráðið. Fleiri tengingar mætti nefna.

Nokkur umfjöllun varð á hinu pólitíska sviði um nefndar skýrslur og má þar sérstaklega nefna grein Ögmundar Jónassonar alþingismanns sem birtist í DV 10. maí 2010. Þar bendir greinarhöfundur á það misræmi sem er í túlkun á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis en í upphafi greinarinnar segir meðal annars:

„Sannast sagna hélt ég að flestir sæju að skortur á gagnsæi og lýðræði ættu drjúgan þátt í efnahagshruninu. Hjarðhegðun hefur líka verið nefnd og tvíburasystir hennar, forræðishyggjan. Hvarvetna þar sem fólk kemur saman til að ræða nýútkomna rannsóknarskýrslu ber þetta hæst. Ekki þó hjá öllum. Ekki hjá starfshópi forsætisráðuneytisins sem í lok síðustu viku skilaði tillögum til ríkisstjórnarinnar um breytta og bætta stjórnsýslu með hliðsjón af efnahagshruninu og lærdómum sem af því hafa verið dregnir.“

Þarna vísar sjálfur hæstv. innanríkisráðherra í þá skýrslu sem er fylgiskjal með frumvarpi þessu, Samhent stjórnsýsla , og lýsir því ansi vel þegar forsætisráðherra fór af stað með sjálfskipaðan hóp sem hún tilnefndi í, mestmegnis eðalkrata, sem komst að niðurstöðu um hvernig ætti að bregðast við hruninu. Það var alveg einstakt þegar hæstv. forsætisráðherra fór í þá vinnu. Þá var rannsóknarnefnd Alþingis nýbúin að skila af sér skýrslu og þingmannanefndin var að störfum. Það þurfti greinilega að komast að einhverri ákveðinni niðurstöðu sem fyrir liggur núna í frumvarpsformi.

Síðan heldur hv. þm. Ögmundur Jónasson áfram í grein sinni, með leyfi forseta:

„En ekki er mikið að finna um leiðir til að komast hjá hjarðhegðun og forræðishyggju eða hvernig megi auka gagnsæi og lýðræði hjá hinu opinbera. Þvert á móti er talað um að þörf sé á að „skerpa á forustuhlutverki forsætisráðherra í ríkisstjórn“; aðrir ráðherrar eigi að sitja „í skjóli“ hans og megi ekki orka tvímælis hverjum beri „að knýja á um ábyrgð þeirra eða afsögn þegar ástæða þykir til“.“

Þessi mótsögn sem greinarhöfundur, hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson, benti á í DV 2010 verður sérstaklega áberandi þegar lesið er álit þingmannanefndar allra flokka sem skilaði af sér ítarlegri og vandaðri skýrslu um viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis ásamt þingsályktunartillögu sem var síðan samþykkt af Alþingi og telst þess vegna breið pólitísk samstaða um niðurstöðu þingmannanefndarinnar. Vandséð er að ríkisstjórnin sem situr í skjóli sama þings geti gengið svo freklega gegn áliti sem Alþingi samþykkti samhljóða á síðasta ári. Þar segir í inngangi:

„Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu, verklagi hennar og skorti á formfestu jafnt í ráðuneytum sem sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneytin heyra. Svo virðist sem aðilar innan stjórnsýslunnar telji sig ekki þurfa að standa skil á ákvörðunum sínum og axla ábyrgð, eins og fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Vegna smæðar samfélagsins skiptir formfesta, skráning upplýsinga, verkferlar, tímamörk og skýr ábyrgðarsvið enn meira máli en í stærri samfélögum. […]

Oddvitaræðið og verklag þess sem tíðkast hefur í íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi dregur úr samábyrgð, veikir fagráðherra og Alþingi og dæmi eru um að mikilvægar ákvarðanir hafi verið teknar án umræðna í ríkisstjórn. Slíkt verklag er óásættanlegt. Ljóst er að ráðherraábyrgðarkeðjan slitnaði eða aflagaðist í aðdraganda hrunsins og ráðherrar gengu á verksvið hver annars, t.d. þegar fagráðherrar voru ekki boðaðir á fundi um málefni sem heyrðu undir þeirra ábyrgðarsvið. Ábyrgð og eftirliti fagráðherra með sjálfstæðum stofnunum sem undir ráðuneyti þeirra heyrðu virtist verulega ábótavant. […]

Þingmannanefndin telur að gera verði breytingar á lögum og reglum þannig að komið verði í veg fyrir að einstakir ráðherrar gangi inn á valdsvið og ábyrgðarsvið annarra ráðherra. Skarist valdsvið tveggja eða fleiri ráðherra ber þeim með formlegum hætti að hafa samvinnu …“

Hér fer beinlínis frumvarpið sem er til umræðu gegn þessari þingsályktunartillögu sem var samþykkt 63:0 á þingi. Frumvarpið gengur út á enn meira foringjaræði, enn meira einræði einstakra aðila. Þá er ég að vísa í þá forsætisráðherravæðingu sem í frumvarpinu liggur. Það á nefnilega ekkert að læra hér af hlutunum. Það á ekki að læra af reynslunni. Nú eru vinstri flokkarnir komnir í stjórn og nú skulu landsmenn fá að vita hverjir það eru sem stjórna.

Í þessu nefndaráliti fer ég líka yfir góða stjórnsýslu og leiðbeiningar um gerð lagafrumvarpa og vísa í Handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa þar sem eru almennar leiðbeiningar um gerð þeirra. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Ef frumvarp varðar málefnasvið annars ráðuneytis ber samkvæmt reglum um undirbúning og meðferð stjórnarfrumvarpa að kynna það viðkomandi ráðuneyti í tæka tíð fyrir ríkisstjórnarfund …“

Hér vísa ég sérstaklega til þess að það er mjög mikið ósamkomulag innan ríkisstjórnarinnar við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann hafnaði þessu frumvarpi á sínum tíma, en þetta er eitt af því sem þarf að laga.

Það sem ég ætla hins vegar að gera að lokaorðum mínum í þessu máli vísar aftast í nefndarálitið. 2. minni hluti telur að sjaldan hafi komið fram annað eins frumvarp sem felur í sér slíkt valdframsal frá löggjafanum til framkvæmdarvaldsins og þetta frumvarp og breytingartillögur meiri hlutans fela í sér, m.a. varðandi það að óþarft sé að tilgreina hversu margir ráðherrar eigi að sitja í skjóli Alþingis. Hér er í raun lagt til að hin óskráða þingræðisregla sem þróast hefur í gegnum áratugina verði aflögð. Það er útilokað að í þróuðum ríkjum sem hafa sterkar löggjafarstofnanir, eins og Norðurlöndin, kæmu svona mál inn á borð þingmanna. 2. minni hluti varar eindregið við vinnubrögðum af þessu tagi.

Ég geri það að tillögu minni að þingmenn allir sjái til þess að frumvarpið verði fellt.