139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:05]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Eins og glöggt hefur komið í ljós voru ýmsir meinbugir á frumvarpinu þegar það kom inn í þingið og umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á því. Breytingartillögur meiri hlutans eru í 18 töluliðum. Sá sem stendur hér er með tvær breytingartillögur við frumvarpið sem ég tel að efli það og geri það betra. Vinnan við þessar breytingartillögur hefur átt sér stað í mjög góðu og miklu samráði við meiri hluta nefndarinnar. Að mínu viti eru það skýr dæmi um góð vinnubrögð í nefndinni og góð vinnubrögð á Alþingi.

Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hv. þingmanns þar sem þessar breytingar eru allar til mikilla bóta hvort hún og flokkur hennar gæti hugsað sér, þó að þau hafi megna andúð á frumvarpinu í heild sinni, að leggja þessum breytingartillögum lið til að sýna þó fram á það að við viljum ganga enn lengra en embættismennirnir í forsætisráðuneytinu sem sömdu frumvarpið.