139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:27]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek að einhverju leyti undir það sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan, að það góða við þessa breytingu er að hún eykur sveigjanleika en hún gerir það svolítið á kostnað þingsins, því er ekki að neita. Þó að ég telji að þetta frumvarp hefði mátt vera öðruvísi upp byggt og unnið með öðrum hætti þá sitjum við engu að síður uppi með það hér í dag eins og það er og ég tel brýnt að það verði samþykkt frekar en að það verði ekki samþykkt.

Ég tel það ekki vera mjög alvarlegt atriði þó að forsætisráðherra eða ríkisstjórnin sem slík fái þetta aukin völd. Ef það verður of mikið gerræði í þeim völdum sem forsætisráðherra fær held ég að engin hætta sé á öðru en að Alþingi muni einfaldlega bregðast við og kalla aftur þetta vald. Það er að vísu mjög óheppilegt að þurfa að vera að hringla með stjórnskipanina fram og til baka.

Svona mál þarf náttúrlega frá upphafi að vinna öðruvísi en var gert með þetta frumvarp. Það var ekki gert í þessu tilfelli og því er frumvarpið eins og það er.