139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég skil niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar rétt er lögð mikil áhersla á það að styrkja löggjafarvaldið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Með því að fela forsætisráðherra ákvörðun um það hvaða ráðuneyti starfa í landinu og færa það vald úr höndum þingsins til framkvæmdarvaldsins tel ég að verið sé að grafa undan þinginu sem stofnun og ég tel að það sé óheppilegt. Ég tel að það sé lýðræðislegra að 63 einstaklingar taki frekar ákvörðun um það hvaða ráðuneyti séu starfandi í landinu en að einn einstaklingur geri það.

Síðan verð ég að segja að það kom mér á óvart hversu mikla áherslu hv. þingmaður lagði á að frumvarp til upplýsingalaga yrði samþykkt sem lög frá þessu þingi vegna þess að helsti höfundur þess frumvarps lýsti því yfir við yfirferð málsins í nefndinni að með því væri verið að slá skjaldborg um opinbera starfsmenn og ríkisstjórn og skapa starfsfrið í stjórnsýslunni. Það fundust mér athyglisverðar yfirlýsingar.