139. löggjafarþing — 160. fundur,  8. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:33]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Orð þingmannsins segja raunverulega það sem segja þarf. Eins og ég fór yfir í ræðu minni áðan var málið fellt í allsherjarnefnd, það náðist ekki út úr henni. Þá var farin sú leið að semja um að ná því út úr allsherjarnefnd og þess vegna skrifuðu svo margir þingmenn undir nefndarálitið með fyrirvara. Ríkisstjórnarflokkarnir ætla alls ekki að samþykkja það sem stendur í frumvarpinu og þeim breytingartillögum sem liggja fyrir.

Hér var talað um hrossakaup í Árósamálinu þegar fallið var frá kæruaðildinni, einn hv. þingmaður Hreyfingarinnar gerði það en ég ætla ekki að nota það orð um þetta mál. Þessir fyrirvarar hjá stjórnarþingmönnum gefa það í skyn að þær breytingartillögur sem búið er að leggja fyrir hljóti ekki hljómgrunn hjá ríkisstjórnarflokkunum.

Þess vegna spyr ég: Eru það ekki vonbrigði fyrir hv. þm. Þór Saari að verða vitni að því að málið sé tekið út með þessum hætti? Það er skrifaður einfaldur fyrirvari þar sem það er gefið í skyn að ekki eigi að standa við breytingartillögurnar sem hann kom sjálfur að ásamt hv. þm. Þráni Bertelssyni.