139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

eignarhald á HS Orku.

[10:36]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Í tilefni af fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna daga um Magma, aðaleiganda HS Orku, hefur það komið fram, m.a. hjá hæstv. umhverfisráðherra og öðrum þingmönnum Vinstri grænna, að þeir séu þeirrar skoðunar að það eigi að vinna áfram að því að koma HS Orku að nýju í samfélagslega eigu. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ríkisstjórnin sé með einhverjum hætti að vinna að því í dag að HS Orka komist að nýju í samfélagslega eigu. Nú liggur fyrir að nefnd um erlenda fjárfestingu hefur ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að fjárfestingin standist íslensk lög. Það er grundvallaratriði að fá þetta á hreint þannig að þeir þingmenn Vinstri grænna sem hafa þau pólitísku áform að koma félaginu aftur í HS Orku viti hvort forsætisráðherrann ætli eitthvað að gera með þann vilja þeirra.

Hitt sem ég vil biðja hæstv. forsætisráðherra að tjá sig um er krafan um að málið verði rannsakað. Er eitthvað því fyrirstöðu af hálfu hæstv. forsætisráðherra að aðdragandi þess að Magma kaupir HS Orku verði rannsakaður og, ef því er að skipta, farið verði allt aftur til þess sem kallað hefur verið einkavæðing fyrirtækisins fram til dagsins í dag? Þá liggur allt fyrir rannsakað af hlutlausum, óháðum aðila. Það hefur ekki skort á að stjórnarliðar drægju í efa þær upplýsingar sem hafa verið nefndar í fjölmiðlum að undanförnu þannig að það er kannski bara best að ríkisstjórnin sjálf hlutist til um rannsókn á málinu.

Þetta er það tvennt sem ég bið hæstv. forsætisráðherra um að svara mér, annars vegar um hina samfélagslegu eign, hvort fyrirtækið verði fært aftur í samfélagslega eign og þá hvernig og hvort ekki sé sjálfsagt að rannsaka þessi mál.