139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

eignarhald á HS Orku.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þingmaður spyr um er ekkert því fyrirstöðu að þetta verði rannsakað. Eftir því sem ég best veit hefur verið samþykkt frumvarp um rannsóknarnefndir þannig að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að þetta mál verði rannsakað. Reyndar ætti að rannsaka líka fleiri mál sem lengi hafa verið í deiglunni og umræðunni, eins og einkavæðingu á bönkunum. Ég vildi gjarnan taka það með inn í þá umræðu og spyrja hv. þingmann hvort hann teldi því nokkuð til fyrirstöðu að rannsókn færi fram á einkavæðingu bankanna á sínum tíma. [Kliður í þingsal.]

Það hafa farið fram viðræður við HS Orku um styttingu leigutíma og forkaupsrétt að hlutum. Það þekkjum við en staðan í því máli er sú að þær viðræður hafa legið niðri að ósk Reykjanesbæjar þar til niðurstaða fæst í mögulegum kaupum ríkisins á jarðhitarétti Reykjanesbæjar á svæðinu. Þetta mál hefur lengi verið þannig statt að við höfum verið tilbúin til viðræðna um styttingu á leigutíma og að veita ríkinu forkaupsrétt. Það er hluti af því sem kalla mætti samfélagslegan hluta af þessu, þ.e. að þetta fyrirtæki yrði að meiri hluta í opinberri eigu en þær viðræður hafa ekki verið til lykta leiddar. Magma hefur þegar selt lífeyrissjóðunum 25% hlutafjár í HS Orku og lífeyrissjóðirnir eiga fyrsta forkaupsrétt að hlutum sem gætu skilað allt að 50% í þessu félagi. Þannig er staðan í þessu máli og ef hv. þingmaður kýs að kalla það samfélagslega eign er það í góðu lagi mín vegna.