139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

frumvarp um Stjórnarráðið.

[10:58]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég held að það þurfi nú engan sérstakan afreksmann til að reka fleyg á milli ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur komið upp og lýst yfir andstöðu sinni við þetta mál og haft á orði að fleiri innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs muni jafnvel ekki styðja það þannig að ég held að málefnaágreiningurinn sé augljós. (Gripið fram í.)

Ég vil líka leiðrétta hæstv. forsætisráðherra þegar hún segir að hér sé verið að byggja á tillögum þingmannanefndar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar var akkúrat kveðið á um að auka veg og virðingu þingsins og að við mundum reyna að sporna við því að framkvæmdarvaldið færi fram með þeim hætti sem reynslan hefur sýnt okkur. Við ræðum mál sem á að auka valdheimildir forsætisráðherra til að gera hlutina eftir sínu höfði og hún svaraði ekki spurningunni áðan um hvort hún hygðist færa verkefni á milli einstakra ráðuneyta eftir að þessi lög hafa verið samþykkt. Ég mótmæli því harðlega að farið sé eftir því sem þingmannanefndin lagði til. (Gripið fram í: Hvað með stefnu Framsóknarflokksins?)