139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

vatnalög.

561. mál
[11:13]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði í umræðunni um vatnalögin; ég óska eftir því að málið gangi til nefndar á milli 2. og 3. umr. Ég bið um að skoðað verði hvernig þessi lög skarast á við önnur lög. Ég bið líka hv. iðnaðarnefnd að skoða hvers vegna verið sé að binda í lög heiti ráðherra, þ.e. að breyta ráðherra í umhverfisráðherra, þegar fyrir þinginu liggur vilji meiri hluta til að gelda öll heiti ráðuneyta og fela þau forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Af hverju er þá verið að binda í lög að þarna eigi að standa umhverfisráðherra í staðinn fyrir ráðherra? Það er á skjön við það sem meiri hlutinn gerir í stjórnarráðsmálinu, það er á skjön við það sem stendur og var samþykkt í Árósasamningnum. Ég bið hv. þingheim að skoða að hér sé ekki verið að samþykkja lög sem fara svo á skjön við það sem ætlað er að samþykkja síðar í vikunni.