139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:22]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða þessa atkvæðagreiðslu. Nú er nýlokið fundi þingflokksformanna þar sem staðan er óbreytt hvað varðar fyrirkomulag þingstarfanna eins og var hér í síðustu viku, á fimmtudaginn þegar við greiddum síðast atkvæði um lengd þingfunda.

Þessi svokallaði septemberstubbur var ætlaður til að ljúka málum sem vinna þyrfti betur í yfir sumarið eða þyrftu meiri tíma til afgreiðslu, ekki til að klára öll mál sem stjórnarmeirihluta hvers tíma dytti í hug að langa til að klára. Þá hefði septemberstubburinn verið lengri en níu þingdagar.

Hér eru á dagskrá 32 mál, sum samkomulagsmál, önnur sem meiri ágreiningur er um. Nú kalla ég eftir því, hæstv. forseti, að það verði einmitt gert sem þarf að gera, þ.e. forgangsraðað hvaða málum er ætlað að ljúka hér og hvaða málum er ekki ætlað að ljúka. Þangað til mun ég greiða atkvæði gegn því að þingfundir verði hér lengri og vísa ábyrgðinni (Forseti hringir.) á þessari óstjórn þingsins — í mestu vinsemd — til hæstv. forseta.