139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

lengd þingfundar.

[11:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það eru komnar upp gamalkunnar aðstæður í þinginu, við erum farin að greiða atkvæði um lengda fundi, kvöldfundi, til að keppast við að ljúka málum sem nánast væri ógerningur að ljúka á svo stuttum tíma þótt allir legðu sig fram.

Á þeirri dagskrá sem við höfum í dag, og veit ég þó að fleiri mál eiga eftir að bætast þar á, má sjá mál sem munu augljóslega þurfa umræðu þó að ekki sé ágreiningur um þau. Ég nefni að við eigum eftir að fara aftur í 3. umr. um vatnalög, við eigum eftir að tala um sveitarstjórnarlög, hér er frumvarp um áfengislöggjöfina, upplýsingalög o.s.frv. Við erum enn þá að ræða Stjórnarráðið, mál sem alveg er ljóst að himinn og haf eru á milli þeirra sem vilja ganga alla leið í því máli og hinna sem eru ósáttir við sérstaklega ákveðna hluti þar í.

Þegar málum er þannig stillt upp í þinginu er ekki hægt (Forseti hringir.) annað en að gagnrýna hvernig haldið er á málum, frú forseti, í mestu vinsemd eins og hér var sagt, þegar hlutunum er stillt upp með þessum hætti. Hér er eingöngu um óstjórn að ræða, ekkert annað.