139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[11:36]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Fram kom í umræðum áðan í atkvæðagreiðslu um frumvarp til nýrra vatnalaga hversu ánægjulegt það væri þegar hinir ólíku stjórnmálaflokkar á Alþingi næðu sameiginlegri niðurstöðu í mikilvægum málum. Ég tek undir það að við meðferð þess máls vann iðnaðarnefnd, og þá kannski fyrst og fremst formaður þeirrar nefndar, hv. þm. Kristján Möller, mikið afrek við að ná að leiða menn saman að sameiginlegri niðurstöðu sem sátt er um á þingi.

Næsta mál á dagskrá þingsins er frumvarp frá hæstv. forsætisráðherra til laga um Stjórnarráð Íslands. Það frumvarp er ekkert samkomulagsmál. Það loga eldar í þinginu og það logar allt stafnanna á milli innan ríkisstjórnarflokkanna um það og með hvaða hætti eigi að afgreiða það mál. Hæstv. ráðherrar hafa ýmist gert fyrirvara eða lýst andstöðu við frumvarpið og ekki er vitað til þess að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar úr röðum stjórnarflokkanna standi allir heilir að baki frumvarpinu.

Áður en ég vík að þeim efnisatriðum sem fram koma í nefndaráliti sem ég og hv. þm. Birgir Ármannsson höfum skilað við málið vil ég segja að þingmönnum stjórnarflokkanna hefur allt frá hruni verið tamt að benda okkur í stjórnarandstöðunni á að á Íslandi hafi orðið hrun. Það gerði hv. þm. Róbert Marshall þegar hann mælti fyrir nefndaráliti meiri hlutans og sagði við okkur hv. þingmenn: Hér varð hrun og þess vegna er nauðsynlegt að gera breytingar á Stjórnarráðinu. Segja má að þingmenn stjórnarflokkanna séu að mörgu leyti farnir að hljóma eins og rispuð plata þegar þeir nefna það við okkur og minna okkur og þjóðina alla á það að hér varð hrun.

Það er öllum kunnugt um að á Íslandi varð efnahagshrun. Það var líka alveg skiljanlegt að í kjölfar efnahagshrunsins, þegar hæstv. ríkisstjórn þurfti að grípa til niðurskurðar og annarra aðgerða sem tengdust hruninu, þyrfti að draga saman í ýmsum málaflokkum og að á það væri bent að hér hefði orðið hrun. Þess vegna þyrftu stjórnmálaflokkarnir og ríkisstjórnin að marka ákveðna stefnu sem þau hefði annars viljað sleppa við.

Í dag eru hins vegar liðin u.þ.b. þrjú ár frá hruni og enn tefla hv. þingmenn stjórnarliðsins fram þeim röksemdum að hér hafi orðið hrun, til stuðnings alls kyns frumvörpum sem borin eru fram. Manni virðist stundum eins og þeir ætlist til þess þremur árum eftir efnahagshrun að úr því að hér hafi orðið hrun eigi stjórnarandstaðan að samþykkja hvaða þvælu sem er sem kemur frá hæstv. ríkisstjórn. Það á líka við um þetta mál.

Hér varð hrun, sagði hv. þm. Róbert Marshall, og þess vegna þarf að breyta skipulagi Stjórnarráðsins. Því er haldið fram að röksemdirnar fyrir þessum mikilsverðu breytingum megi finna í miklum skýrslum sem gefnar hafa verið út, þ.e. skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis annars vegar og hins vegar skýrslu þingmannanefndar Alþingis. En hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra benti á það skilmerkilega í svari sínu við fyrirspurn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrr í dag að þær breytingar á Stjórnarráðinu sem hæstv. forsætisráðherra fer fram með í þessu máli hafa ekkert með niðurstöður þingmannanefndarinnar að gera og þaðan af síður þær tillögur sem rannsóknarnefnd Alþingis hafði fram að færa.

Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forsætisráðherra verði viðstödd þessa umræðu. Ég óska eftir því að kannað verði hvort hún sé í húsinu og hlýði á þau sjónarmið sem hér koma fram. Það er nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra bæði hlýði á þau sjónarmið sem fram koma og sé tilbúin að svara þeim spurningum sem frá okkur þingmönnunum koma vegna þessa máls.

(Forseti (RR): Forseti getur upplýst hv. þingmann um að hæstv. forsætisráðherra er í húsinu.)

Þakka þér fyrir það, frú forseti.

Varðandi frumvarpið vil ég segja að það er margslungið. Annars vegar er ástæða til að ræða pólitískt samhengi frumvarpsins í ljósi þeirrar stöðu sem ríkisstjórnin er í. Hins vegar er mikilvægt að efnisleg umræða um einstök ákvæði frumvarpsins verði ítarleg í sölum þingsins vegna þess að efnisatriði frumvarpsins eru þess eðlis að þau kalla á mjög nákvæmar umræður og skýr svör frá forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar um tildrög þess að frumvarpið var lagt fram.

Ég tók eftir því við upphaf þessarar umræðu þegar hv. þm. Róbert Marshall, formaður allsherjarnefndar Alþingis, mælti fyrir nefndaráliti meiri hlutans að hann reyndi að leggja línurnar um með hvaða hætti umræða um málið skyldi fara fram. Hann óskaði eftir því að umræðan færi einungis fram um efnisatriði málsins en vildi ekki ræða pólitískt samhengi þess. Það er út af fyrir sig eðlilegt vegna þess að frumvarpið er lagt fram af hálfu hæstv. forsætisráðherra við afar — ja, hvað eigum við að segja — sérkennilegar aðstæður. Ég ætla nú ekki að verða við beiðni hv. þm. Róberts Marshalls um að ræða ekki hið pólitíska samhengi málsins vegna þess að ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að við fjöllum um þann þátt málsins og afstöðu til frumvarpsins innan ríkisstjórnarflokka og ríkisstjórnar.

Það er nú einu sinni þannig að í landinu er við völd ríkisstjórn (MÁ: Kommúnistastjórn.) Jóhönnu Sigurðardóttur — kommúnistastjórn, kallar hv. þm. Mörður Árnason fram í. Ég get svo sem alveg tekið undir það að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar á margt sameiginlegt með kommúnista- og sósíalistastjórnum sem reyndar eru flestar farnar frá í hinum vestræna heimi eftir að Berlínarmúrinn féll. Þar er skemmst að minnast frumvarps ríkisstjórnarinnar um að festa gjaldeyrishöft í sessi til ársins 2015, (Gripið fram í.) þ.e. að lögfesta hina svokölluðu austur-þýsku leið, úr því að hv. þingmaður kallaði fram í ræðu mína.

Staðan er sem sagt sú að einungis 32 þingmenn styðja ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún styðst því við minnsta mögulega meiri hluta alþingismanna og meiri hlutinn getur ekki naumari verið. Það þýðir, eins og allir vita og allir hafa séð, að hver einasti þingmaður ríkisstjórnarflokkanna fer með neitunarvald í öllum málum sem hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórn hennar leggja fram. Slík stjórn er hvorki burðug né sannfærandi, öfugt við það sem var þegar viðreisnarstjórnin starfaði undir eins manns meiri hluta. Þá unnu menn saman sem einn maður og voru sammála, en innan raða þessarar ríkisstjórnar er hver höndin upp á móti annarri.

Við þessar aðstæður hefði ég haldið að hæstv. forsætisráðherra, sem styðst einungis við eins manns meiri hluta og varla það í þinginu, mundi reyna að bera klæði á vopnin, smala köttunum saman og fá einhvern samhljóm í ríkisstjórnarsamstarfið. En eins og menn sjá í umfjöllun um frumvarpið er eitthvað annað uppi á teningum í þessu máli. Þegar hæstv. forsætisráðherra stendur frammi fyrir því að friður er í boði velur hún eins og venjulega að fara í stríð og setur þingmenn og hæstv. ráðherra hvern upp á móti öðrum í umfjöllun um þetta mál. Það er sérstök stjórnviska og stjórnkænska í mínum huga hjá hinum mikla verkstjóra þessarar ríkisstjórnar, sem var einmitt kallaður til verka vegna sérstakra meintra verkstjórnarhæfileika. En nú hefur komið í ljós (Gripið fram í.) — nei, hv. þingmaður, ég á ekki við hv. þm. Róbert Marshall heldur hæstv. forsætisráðherra — að verkstjórnarhæfileikar hæstv. forsætisráðherra eru af mjög skornum skammti og það sést best á því hvernig á þessu máli hefur verið haldið.

Forsætisráðherra sem verkstjóri í ríkisstjórn ætti að reyna að þjappa liði sínu saman en þetta mál hefur orðið til þess, og ég segi það bara frá mínu hjarta, sem betur fer, að fara langt með að sundra þessari ríkisstjórn. Það dylst engum að með þessu frumvarpi er markmið hæstv. forsætisráðherra fyrst og fremst það, þó að það sé ekki yfirlýst og hv. þingmenn stjórnarliðsins neiti því en það sjá þó allir, að losna við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úr ríkisstjórn Íslands. Mikill áhugi hefur verið fyrir því, sérstaklega innan Samfylkingarinnar, að gera þá breytingu á núverandi hæstv. ríkisstjórn, að bola hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úr ríkisstjórninni, enda hefur hann verið samstarfsflokknum býsna erfiður, sérstaklega þegar komið hefur að málum sem snúa að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þar höfum við, ég og hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, átt samleið, við erum andsnúnir því að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og við erum andsnúnir því að þeim aðildarviðræðum eða aðlögunarviðræðum sem í gangi eru verði fram haldið. Af þeim ástæðum hefur þetta frumvarp verið skrifað, sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur kallað lengsta uppsagnarbréf sem nokkurn tíma hefur sést, upp á 138 blaðsíður.

Ég sagði í fyrri ræðu minni við 1. umr. um frumvarpið að það hefði verið eðlilegra og heiðarlegra af hæstv. forsætisráðherra að nafngreina hreinlega hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í frumvarpinu og viðurkenna til hvers það er sett fram. Það er a.m.k. ekki neinn vafi um það í huga hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hann hefur beinlínis lýst yfir andstöðu sinni við þetta stjórnarfrumvarp. Hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson, sem er samflokksmaður hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur líka gert alvarlega fyrirvara við málið og lét bóka það þegar frumvarpið var afgreitt úr ríkisstjórn. Þessir menn vita auðvitað til hvers refirnir eru skornir. Þeir vita hvað býr hér að baki þó svo að hæstv. forsætisráðherra vilji ekki viðurkenna það.

Þess vegna spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum ætti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að veita svo mikla mótspyrnu í þessu tiltekna máli, sem er stjórnarfrumvarp, að því er sagt er, ef ástæðurnar fyrir framlagningu þess eru ekki þær sem raktar hafa verið, heldur málefnalegar tillögur hæstv. forsætisráðherra til að gera nauðsynlegar breytingar á Stjórnarráðinu?

Þetta er mikilvægt mál, frumvarp um Stjórnarráð Íslands. Það er hvorki meira né minna en frumvarp um framkvæmdarvaldið á Íslandi, einn handhafa ríkisvaldsins. Það hlýtur að vera saga til næsta bæjar hvar sem er ef frumvarp um heildarlög um starfsemi framkvæmdarvalds, lagt fram af hæstv. forsætisráðherra, skuli ekki einu sinni njóta stuðnings allra ráðherra hæstv. í ríkisstjórn hennar. Það er staðan í tengslum við þetta mál að ekki einu sinni allir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur styðja þetta mál. Ein af ástæðum fyrir því að ég hafði efasemdir og athugasemdir við frumvarpið við 1. umr. um það var að hér væri um að ræða stjórnarfrumvarp í skilningi þingskapalaga og í stjórnskipulegum skilningi, eins og farið hefur verið yfir í fræðiskrifum margra okkar fremstu stjórnskipunarfræðinga í gegnum tíðina og áratugina.

Það eru ekki bara hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og hæstv. innanríkisráðherra sem gert hafa efasemdir og athugasemdir við frumvarpið. Við minnumst þess sem höfum átt sæti í hv. allsherjarnefnd að það tókst ekki fyrr en í annarri tilraun að afgreiða málið úr hv. allsherjarnefnd vegna þess að stjórnarflokkarnir höfðu á þeim tíma, í byrjun síðustu viku, ekki einu sinni meiri hluta fyrir málinu í nefndinni. Hv. þm. Þráinn Bertelsson setti stjórnarflokkunum stólinn fyrir dyrnar og kom í veg fyrir að frumvarpið yrði afgreitt úr nefndinni með þeim hætti sem aðrir fulltrúar meiri hlutans í nefndinni ætluðu sér að gera. Það tókst þeim ekki fyrr en hv. þingmaður hafði komið fram breytingartillögum sem hann hafði, í félagi við hv. þm. Þór Saari, lagt áherslu á að næði fram að ganga.

Ég verð því að segja fyrir mína parta að á þessu verklagi öllu er ákaflega lítill bragur. Ég vil líka lýsa þeirri skoðun minni að ég mótmæli því að efni frumvarpsins hafi eitthvað með niðurstöður þingmannanefndar Alþingis og rannsóknarnefndar Alþingis að gera. Því hefur verið haldið fram og fullyrt að frumvarpið sæki stoð sína og efni til þeirra tillagna sem þar koma fram. Ég hef lesið þessar skýrslur spjaldanna á milli og það væri, (Gripið fram í.) hv. þm. Mörður Árnason, (Gripið fram í.) umræðunni til framdráttar ef fylgismenn frumvarpsins, ég tala nú ekki um hæstv. forsætisráðherra, gætu bent mér á þá kafla í þessum tveimur skýrslum sem renna stoðum undir tillögurnar sem frumvarpið mælir fyrir. (Gripið fram í.)

Ég velti því líka fyrir mér, hv. þm. Mörður Árnason, hvort framlagning þessa frumvarps tengist eitthvað aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Gæti það nú verið? Gæti verið að andstaða hæstv. sjávarútvegs- og landbúnðarráðherra til málsins tengdist því að frumvarpið á rætur sínar að rekja til aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu? (Gripið fram í.) Ég get bent hv. þm. Merði Árnasyni á að það er ekki langt síðan sameiginleg þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins fundaði og mikið var gert með þann fund. Á þeim fundi voru lögð fram drög að sameiginlegri ályktun íslenskra þingmanna og þingmanna Evrópuþingsins. Í einum kafla ályktunardraganna sem samin voru í Brussel, ef ég man rétt, er fjallað um möguleika Íslands til að uppfylla þær skyldur sem því beri að uppfylla til þess að geta orðið aðili að Evrópusambandinu. Í 14. punkti þeirra ályktunardraga er því sérstaklega fagnað að uppi séu áform um stjórnsýslulegar endurbætur og þá sérstaklega um sameiningu ráðuneyta. Það er auðvitað það sem frumvarpið gengur út á, er það ekki rétt hjá mér, hv. þm. Mörður Árnason, að sameina ráðuneyti og gera stjórnsýslulegar endurbætur eða breytingar? Þegar maður les þessi ályktunardrög saman um frumvarpið er auðvitað ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að í frumvarpinu felist einhver hluti af því aðlögunarferli sem á sér stað vegna aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. (Gripið fram í.) Getur það verið? Ég velti því upp.

Ég hef spurt hæstv. forsætisráðherra að því hvort frumvarpið … (Forseti hringir.)

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmann að ávarpa forseta og tala ekki til annarra þingmanna í salnum með beinum hætti eins og hér er gert.)

Ég biðst afsökunar á því, hæstv. forseti, en ítrekuð frammíköll og fyrirspurnir frá hv. þingmanni gera það að verkum að ég neyðist eiginlega til að svara þeim og beina orðum mínum til hv. þingmanns. En ég viðurkenni það fúslega að athugasemdir hæstv. forseta í þessu sambandi eru réttar.

Ég varpaði þessum spurningum til hæstv. forsætisráðherra og velti því fyrir mér hvort frumvarpið tengist með einhverjum hætti aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Ég fékk einungis þau svör frá hæstv. forsætisráðherra að ég hefði fjörugt ímyndunarafl. Það kann vel að vera að ég hafi fjörugt ímyndunarafl en hitt er annað mál (Gripið fram í.) að þegar menn lesa og kynna sér ályktunardrög sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og Evrópusambandsins og þau sjónarmið sem þar koma fram og máta þau saman við efnisatriði frumvarpsins (Gripið fram í.) er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu. En samningamenn Evrópusambandsins ættu að vera býsna ánægðir með hæstv. forsætisráðherra og það frumvarp sem hún hefur lagt fram í þinginu til umræðu, a.m.k. ánægðari en hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem mun ekki styðja frumvarpið.

Það er mikilvægt að þingið og þjóðin öll átti sig á því í hvaða pólitíska samhengi þetta mál er lagt fram. Hér er leggur hæstv. forsætisráðherra fram frumvarp sem er í hróplegri andstöðu við sjónarmið hæstv. ráðherra í hennar eigin ríkisstjórn. Ég á eftir að sjá að það njóti stuðnings innan þingsins.

Ef við víkjum þá að efnisatriðum frumvarpsins, sem eru í rauninni hinn vinkillinn á þessari umræðu, höfum við, ég og hv. þm. Birgir Ármannsson, lagt fram býsna ítarlegt nefndarálit með frumvarpinu upp á sjö blaðsíður. Það er skemmst frá því að segja að í því nefndaráliti komumst við að þeirri niðurstöðu að ekki sé ástæða til að samþykkja frumvarpið. Þau sjónarmið sem þar eru færð fram eru í rauninni að miklum hluta sömu sjónarmið og fram komu í svari hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í dag.

Við vekjum athygli á því að við meðferð málsins fór ekki fram skipulögð eða markviss úttekt á áhrifum allra þeirra breytinga sem frumvarpið mælir fyrir um um skipulag og starfshætti Stjórnarráðsins.

Frumvarpið er samið í forsætisráðuneytinu, eins og fram kemur í greinargerð með því, og byggist fyrst og fremst á tillögum sem gerðar voru og komu fram í skýrslunni Samhent stjórnsýsla frá því í desember 2010. Sú skýrsla var samin af starfshópi sem skipaður var af forsætisráðherra vorið 2010 til að fara yfir og meta niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar svokölluðu, sem skipaðar voru á grundvelli laga nr. 142/2008, með síðari breytingum. Ég hef sagt það áður að ég tel að frumvarpið hafi lítið sem ekkert með niðurstöður þingmannanefndar Alþingis að gera og þaðan af síður tillögur rannsóknarnefndar Alþingis. Hins vegar taka efnisatriði frumvarpsins mjög mið af þeim tillögum sem fram koma í skýrslu starfshóps forsætisráðherra þannig að þetta frumvarp er frumvarp hæstv. forsætisráðherra.

Eins og fram kemur í nefndaráliti mínu og hv. þm. Birgis Ármannssonar teljum við að veigamesta breytingin sem í þessu frumvarpi felst sé að með því sé ákvörðunarvald um hvaða ráðuneyti starfa í landinu fært frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins. Með þessu breytta fyrirkomulagi er valdið í þessum efnum fært frá Alþingi til ríkisstjórnar og þá fyrst og fremst til forsætisráðherra sem ber hina stjórnskipulega ábyrgð á embættisathöfnum forseta í þessum efnum. Eins og ég hef áður sagt og ítreka á þessi breyting sér hvorki stoð í niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis né þingmannanefndarinnar. Ég er ekki einn þeirrar skoðunar, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra staðfesti þann skilning okkar hv. þm. Birgis Ármannssonar fyrr í dag í fyrirspurnatíma.

Við sjálfstæðismenn leggjumst eindregið gegn þeirri breytingu og bendum á að með henni sé horfið frá þeirri skipan sem verið hefur hér á landi frá árinu 1969. Hún felst í meginatriðum í því að heiti ráðuneyta eru tilgreind í lögum og hvorki er hægt að stofna ný ráðuneyti né leggja þau af nema með lagasetningu og þá með þeim hætti að Alþingi kemur að slíkum ákvörðunum. Við teljum að það sé lýðræðislegri aðferð að 63 einstaklingar taki ákvörðun um grundvallarbreytingar varðandi starfsemi Stjórnarráðsins en að einum einstaklingi, í þessu tilviki hæstv. forsætisráðherra, hver sem það nú er á hverjum tíma, verði falið það ákvörðunarvald.

Að okkar mati hníga flest rök gegn þeirri breytingu sem lögð er til. Í fyrsta lagi er um að ræða tilflutning valds frá Alþingi til ríkisstjórnarinnar og þá einkum forsætisráðherra. Það hlýtur, að okkar mati, að teljast meiri háttar ákvörðun um fyrirkomulag æðstu stjórnar ríkisins hvaða ráðuneyti eru starfandi á hverjum tíma. Í slíkri ákvörðun getur falist mikilvæg pólitísk stefnumörkun og afleiðingarnar geta verið miklar og birst með margvíslegu móti. Það er eðlilegt að ákvörðunarvaldið í þessum efnum sé hjá þinginu, alveg eins og það er óumdeilt hlutverk þingsins að taka ákvarðanir um stofnun eða aflagningu allra annarra stofnana ríkisins. Sá valdatilflutningur sem felst í frumvarpinu er í miklu ósamræmi við þau viðhorf sem uppi hafa verið í samfélaginu á síðustu árum um að efla beri löggjafarvaldið og Alþingi sem stofnun og draga að sama skapi úr áhrifum framkvæmdarvaldsins og ríkisstjórnarinnar. Það eru þau viðhorf sem fram koma í skýrslum rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar og að þessu leyti fer frumvarpið gegn þeim sjónarmiðum sem þar koma fram. Því sjónarmiði höfum við haldið fram í umræðunni alveg frá upphafi, og ekki bara við; ég þreytist ekki á að nefna að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggur nákvæmlega sama skilning í málið og hann á sæti í þeirri ríkisstjórn sem að heita má leggi þetta frumvarp fram.

Ég hef lengi verið í umræðum á Alþingi og hef tekið eftir því að ár eftir ár, bæði þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í ríkisstjórn með Samfylkingu og Framsóknarflokki og síðan í tíð þessarar ríkisstjórnar, að hvar sem er, hvort sem það er innan þingsins, í sérfræðinefndum eins og rannsóknarnefnd Alþingis eða þingmannanefndinni eða í opinberri umræðu hjá þeim sem láta sig stjórnmál varða, hafa allir lagt mikla áherslu á að efla og styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það gerðu hv. þingmenn núverandi stjórnarflokka meðan þeir voru í stjórnarandstöðu, en þetta frumvarp fer þveröfuga leið, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Það færir ákvörðunarvaldið um það hvaða ráðuneyti skuli starfa á Íslandi úr höndum Alþingis og yfir í hendur hæstv. forsætisráðherra. Það er alveg skýrt.

Við teljum einnig að frumvarpið auki hættu á lausung og jafnvel geðþóttaákvörðunum í sambandi við skipan ráðherra. Við teljum að ákveðin festa sé nauðsynleg í sambandi við æðstu stofnanir framkvæmdarvaldsins. Slík festa skiptir máli fyrir alla þá sem hagsmuna eiga að gæta, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða hagsmunahópa sem samskipti eiga við ráðuneytin, starfsmenn þeirra og opinberar stofnanir sem undir þau heyra.

Við, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í hv. allsherjarnefnd, höfum sagt að ýmis ákvæði þessa frumvarps séu til bóta. Í sumum tilvikum teljum við þó að með frumvarpinu sé verið að lögfesta sjálfsögð atriði sem við sjáum varla þörf á að setja inn í lagatexta, en önnur atriði frumvarpsins eru umdeilanleg vegna efnisinnihalds þeirra. Það sama á við um einstakar breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar gerir.

Við gerum efnislegar athugasemdir í nefndaráliti okkar við fjölmörg ákvæði frumvarpsins en veigamesta athugasemdin lýtur að því sem ég fór yfir áðan. Við sættum okkur ekki við að með frumvarpinu sé grafið undan þinginu, þingið veikt með því að færa ákvörðunarvald um það hvaða ráðuneyti séu starfandi í landinu frá Alþingi til hæstv. forsætisráðherra sem æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins. Það er helsta efnislega athugasemd okkar við frumvarpið.

Síðan eru auðvitað fjölmörg önnur efnisleg atriði við ákvæði frumvarpsins sem við setjum spurningarmerki við eða gerum miklar athugasemdir við. Hv. þm. Birgir Ármannsson fór yfir nokkrar af þeim athugasemdum eins og t.d. valdframsalið í 2. gr. frumvarpsins. Þar er sú kjarnagrein sem við gerum helst athugasemdir við en í því ákvæði er mælt fyrir um valdframsal frá Alþingi til forsætisráðherra.

Ég vil líka vekja athygli á 7. gr. frumvarpsins. Við gerum svo sem ekki neinar athugasemdir við greinina eins og hún er orðuð í frumvarpinu og teljum að breytingartillaga meiri hlutans um að haldin sé sérstök trúnaðarmálabók kunni að vera til bóta. Það var afgreiðsla þessa ákvæðis frumvarpsins úr hv. allsherjarnefnd sem olli stjórnarmeirihlutanum vandræðum. Þarna hékk málið á bláþræði vegna þess að hv. þm. Þráinn Bertelsson, með dyggum stuðningi hv. þm. Þórs Saaris, lagði það til að inn í frumvarpið yrði sett ákvæði sem mælti fyrir um að ríkisstjórnarfundir skyldu hljóðritaðir og hljóðupptökunum haldið leyndum í 30 ár en þær síðan gerðar opinberar eftir það. Það er auðvitað mjög róttæk hugmynd og áður en ég tek efnislega afstöðu til hennar mundi ég telja ástæðu til að fara aðeins betur yfir hvaða afleiðingar sú breytingartillaga hefur. Hún hefur vissulega kosti, þ.e. að færa söguna í hljóðskrár, en hún kann líka að hafa galla. Ég velti því fyrir mér hvort ríkisstjórnarfundir mundu breytast við þetta, hvort menn mundu yfir höfuð segja hug sinn á ríkisstjórnarfundum þegar þeir vissu að þeir væru teknir upp á segulband. Það kann að vera að ríkisstjórnarfundir eins og þeir eru núna færist út fyrir Stjórnarráðið og málin verði afgreidd utan Stjórnarráðsins áður en til formlegra funda kemur.

Við leggjumst líka gegn 22. gr. frumvarpsins. Þar er lagt til að aðstoðarmönnum verði fjölgað. Í breytingu meiri hlutans felst að heildarfjöldi aðstoðarmanna ráðherra skuli vera tvöfaldur fjöldi ráðherra að þremur viðbættum. Við teljum ekki ástæðu til að auka yfirbygginguna í Stjórnarráðinu eins og lagt er til, sérstaklega ekki á þessum tímum. Ég verð að segja að ég á erfitt með að sjá fyrir mér hvernig sú hugsun sem fram kemur í breytingartillögunni verður í framkvæmd. Skilningur minn er sá að að meginstefnu til sé lagt til að hver ráðherra hafi tvo aðstoðarmenn og ef ráðuneytin eru tíu séu aðstoðarmennirnir allt að tuttugu talsins, en síðan séu þrír aðstoðarmenn þar fyrir utan sem geta virkað eins og björgunarsveit eða slökkvilið, einhvers konar bakvarðasveit sem þvælist á milli ráðuneyta þar sem eldarnir brenna. Það kæmi sér auðvitað vel við þessar aðstæður þar sem eldar brenna í flestum ráðuneytum núverandi hæstv. ríkisstjórnar, en ég hef skilið það þannig — ég sé að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hristir hausinn — að slökkviliðið skuli að vera til taks í ráðuneytum þar sem mikið er undir og margt að gerast og einstakir hæstv. ráðherrar þurfa á liðsinni að halda.

Ég segi fyrir mína parta að mér finnst of mikið í lagt. Það er svo sem ekkert nýtt að hæstv. ráðherrar telji sig þurfa á meiri pólitískri og faglegri aðstoð að halda í sínum erfiðu störfum, en á tímum þar sem verið er að skera niður í almannaþjónustu og velferðarkerfið og lykilstofnanir þess þurfa að berjast fyrir hverri krónu, hvort sem er í rekstri eða viðhaldi, t.d. á Landspítalanum eða Borgarspítalanum sem virðist vera að fúna og grotna niður, telur framkvæmdarvaldið eðlilegast að auka aðstoð við hæstv. ráðherra. Mér finnst sú forgangsröðun ekki ganga upp.

Þó svo að ég leggist eindregið gegn frumvarpinu má ekki skilja það þannig að ég sé almennt andsnúinn þeirri stefnumörkun að ráðuneytum verði fækkað og yfirbygging í stjórnsýslunni minnkuð, en það þarf að gera það að vel yfirlögðu ráði, ekki í einhverju krampakasti sem hluta af pólitískri refskák, eins og mér finnst þetta frumvarp vera til merkis um.