139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:51]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér er kært að upplýsa af hverju ég er með fyrirvara á nefndarálitinu. Eins og hv. þingmanni sem á sæti í allsherjarnefnd er kunnugt um var mikil pressa á síðustu fundum nefndarinnar á að ljúka umfjöllun um m.a. ritun fundargerða og varðveislu þeirra. Ég taldi mig þurfa betri tíma til að skoða það mál sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði að umtalsefni áðan og snýr að hljóðritun ríkisstjórnarfunda. Ég neita því ekki að ég er sama sinnis og hann, að það kunni að breyta umræðum í ríkisstjórn að þær verði hljóðritaðar. Ég er ekki sannfærð um að það muni ekki breyta þeim til bóta, það kann vel að vera að það verði bara til bóta. Fyrirvari minn lýtur að þessu.