139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn kom hér að kjarna málsins og upplýsti þingheim um að slíkur flýtir hefði verið á málinu í allsherjarnefnd að það kemur ófullburða inn í þingið. Markmiðið hjá ríkisstjórninni er nefnilega að keyra þetta mál í gegn á haustþingi og færa alræðisvald til hæstv. forsætisráðherra. Það var það mikill flýtir á því og svo mikið lá á að ekki var hægt að taka umræðuna um þetta á nýju þingi í október. Þannig liggur í því enda féll málið náttúrlega í allsherjarnefnd, það skal enginn gleyma því. Gert var samkomulag um að taka málið úr nefndinni og stjórnarliðar eru á málinu með fyrirvara. Það skal upplýst hér.

Þingmaðurinn fór yfir að hún teldi til bóta þann fjölda aðstoðarmanna sem lagður er til í frumvarpinu. Ráðherrar eiga að geta valið sér núna 23 aðstoðarmenn verði frumvarpið að lögum. Hvað finnst hv. þingmanni um að sjálfur forsætisráðherra eigi að setja þeim hópi siðareglur?