139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mikilvæga mál var á sínum tíma afgreitt út úr ríkisstjórn gegn vilja eins hæstv. ráðherra og með hjásetu annars. Við hv. þm. Álfheiður Ingadóttir áttum orðastað um frumvarpið við 1. umr. þess og þá kom meðal annars fram að þingflokkur Vinstri grænna hefði afgreitt málið með fyrirvara.

Nú vitum við alveg hvað það þýðir á mæltu máli þegar mál eru afgreidd með fyrirvara af heilum þingflokki. Þá liggur fyrir að þó að heimilt sé að leggja fram frumvarpið eru gerðar athugasemdir við svo veigamikla kafla og veigamikla þætti og efnisatriði í frumvarpinu, að ástæða er talin til að leggja það fram með fyrirvara. Hverjir skipa nú þingflokk VG? Það eru meðal annars fimm ráðherrar. Það liggur því fyrir að í raun og veru höfðu allir ráðherrar VG fyrirvara um þetta mál þó að þeir hafi heimilað framlagningu þess út úr ríkisstjórninni.

Nú spyr ég hv. þingmann: Úr því að fyrirvari var af hálfu heils þingflokks um þetta stóra, mikla mál, (Forseti hringir.) sem hefur nú verið afgreitt frá allsherjarnefnd, hvað er það (Forseti hringir.) í frumvarpinu svo breyttu sem gefur tilefni til að ætla að þingflokkur VG muni samþykkja það?