139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[12:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson áttum orðastað um fyrirvara þingflokks Vinstri grænna í þessum efnum í vor, eins og hann rakti. Þetta var almennur fyrirvari vegna þess að sitt sýndist hverjum í þingflokknum um þetta mikilvæga mál. Við eigum tvo fulltrúa í hv. allsherjarnefnd og þar höfum við, ég og hv. þm. Þráinn Bertelsson, unnið að málinu í góðu samkomulagi og við höfum reglulega gefið þingflokknum skýrslu um hvernig starfinu miðaði.

Ég er hins vegar ekki í neinni hausatalningu með það hvernig menn munu greiða atkvæði um einstakar breytingartillögur. Það eru engin handjárn í þeim efnum. Ég fullyrði að málið er mjög vel unnið og tillögurnar sem liggja fyrir eru vandlega undirbúnar og eiga að geta komið til afgreiðslu og verið samþykktar.