139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[13:01]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég lýsti því áðan — hv. þingmaður hefur kannski ekki verið viðstaddur — að ég teldi svo ekki vera. Ég tel að verði þessi breyting samþykkt sé ekki hægt að breyta ráðuneytum þannig að fjölga þeim eða fækka eða flytja málefni til eða frá ráðuneytum öðruvísi en fyrir því sé þingmeirihluti vegna þess að slíka ákvörðun þarf að taka af ríkisstjórn sem er fulltrúi þeirra stjórnmálaflokka sem hafa meirihlutavald að baki sér á Alþingi eða stuðning við minnihlutastjórn.

Frú forseti. Ég tel að styrkja beri hlutverk Alþingis sem löggjafa og styrkja eftirlitshlutverk þingsins sérstaklega. En ég tel ekki að Alþingi þurfi endilega að skipta verkum á stjórnarheimilinu. Ég tel að ríkisstjórn sé bærari til þess.