139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

staðan í viðræðum við Evrópusambandið í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.

[15:07]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir að koma með þessa umræðu í þingið. Áður en ég vík að þeirri stöðu sem komin er upp í aðildarsamningum okkar við ESB um landbúnað vil ég minna á að í áliti meiri hluta hv. utanríkismálnefndar um umsókn Íslands að ESB er tekið fram að ekki verði vikið frá þeim hagsmunum sem nefndarálitið lýsir án umræðu á vettvangi Alþingis. Enn fremur vil ég minna á margendurteknar yfirlýsingar í þessum sal um að ekki verði ráðist í neina aðlögun af hálfu Íslands í samningaferlinu, hvorki með lagabreytingum né öðrum hætti með breytingum á innviðum íslensks samfélags.

Í rýniskýrslunni er farið yfir stöðu mála í landbúnaði á Íslandi. Svo langt sem sú lýsing nær er hún í öllum aðalatriðum rétt og lýsir aðstæðum hér. En í texta framkvæmdastjórnarinnar er hvergi vikið að neinni sérstakri tilslökun gagnvart því að Ísland taki að fullu yfir það stjórnkerfi sem gildir um landbúnað í Evrópu. Þvert á móti því í texta skjalsins má lesa eftirfarandi í lauslegri þýðingu, með leyfi forseta:

„Við inngöngu Íslands í Evrópusambandið verður Ísland að tryggja beitingu og framkvæmd á réttarreglum Evrópusambandsins varðandi landbúnað og dreifbýlisþróun. Það mun sér í lagi krefjast að Ísland beiti EES-reglum um beingreiðslur og tryggi innleiðingu á hinu sameiginlega skipulagi markaðsmála fyrir hinar mismunandi landbúnaðarafurðir. Það muni krefjast aðlögunar að gildandi löggjöf og stjórnskipulagi Evrópusambandsins.“

Stærstu tíðindi þessarar skýrslu eru að mínu mati þau að Evrópusambandið kýs að beita okkur svonefndum opnunarskilyrðum til að samningaviðræður um landbúnað og dreifbýlisþróun geti hafist. Þá er ekki að sjá að gefin sé von um að Evrópusambandið muni á einn eða annan hátt taka tillit til hugsanlegra krafna Íslands um styrkjakerfi er hentaði betur íslenskum aðstæðum en styrkjakerfi sambandsins gerir, þar á meðal greiðslur út á land þar sem skilgreina þarf hvern lófastóran blett lands í landbúnaðarnotkun og styrki honum tilheyrandi. Það hefur vafist fyrir mönnum að fella íslenskar bújarðir að því.

Að opnunarskilyrði sé upp sett fyrir aðildarsamningum er út af fyrir sig ekki nýlunda. Þannig voru Króatíu sett skilyrði um að bæta úr hagsýslugerð í landbúnaði til að samningar hæfust um landbúnað, og fjögur önnur skilyrði voru gerð áður hægt var að ganga frá samningum. Þau opnunarskilyrði sem á okkur eru sett eru talsvert víðtækari því að Íslandi er gert skylt að leggja fram ítarlega áætlun um hvernig það ætli að taka yfir hina almennu landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins ef til aðildar kemur. Tiltekið er að slík áætlun verði að fela í sér tímaáætlun um hvaða stofnanir verða settar á laggirnar, og lagaramma og pólitíska stefnumörkun. Þau opnunarskilyrði sem Evrópusambandið setur koma á óvart þegar haft er í huga að á rýnifundi um landbúnaðarkaflann sem fram fór í Brussel 27. janúar síðastliðinn lýsti íslenska samninganefndin því yfir að þrátt fyrir þá ákvörðun Íslands að breyta ekki íslenskri stjórnsýslu eða lögum fyrr en fyrir lægi að aðildarsamningur hefði verið samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi, yrði unnt að gera allar nauðsynlegar laga- og stjórnsýslubreytingar þannig að allt yrði til reiðu frá gildistöku aðildar. Ef til vill er sú yfirlýsing Íslands að hefja engar breytingar á stjórnsýslu og lögum landsins, eins og þar var tilkynnt, kveikjan að kröfu Evrópusambandsins, enda líklega án fordæmis við umsókn lands að sambandinu.

Herra forseti. Sú áætlun sem gerð er krafa um og eins lagabreytingar eftir samþykkt aðildar, gætu orðið bindandi fyrir Alþingi ef til aðildar kemur. Hér skiptir því miklu máli hversu nákvæmrar eða almennrar áætlunar framkvæmdastjórnin krefst til þess að fullnægja skilyrðum sem sett yrðu fyrir því að opna samningskafla um landbúnað.

Sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er ég ráðinn í að virða samþykktir Alþingis og þau valdsmörk sem mér eru sett sem ráðherra. En í þessu efni verður það fyrsta verk ráðuneytis míns að leita svara um hversu ítarlega áætlun Íslandi er ætlað að leggja fram í þessu efni sem svo miklu skiptir um verklag og möguleika ráðuneytisins til að verða við þeim kröfum sem framkvæmdastjórnin setur.

Ég ítreka, herra forseti, að þessar kröfur þurfa að vera mjög skýrar til að hægt sé að setja þá (Forseti hringir.) vinnu í gang sem óskað er, en það eru þær ekki í því bréfi sem liggur fyrir.