139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

staðan í viðræðum við Evrópusambandið í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.

[15:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Nú liggur fyrir af hálfu Evrópusambandsins að sambandið gerir ráð fyrir því að þegar land sækir um aðild að sambandinu ætli það sér að verða þar aðili og gangast undir þær reglur sem Evrópusambandið snýst um. Hæstv. utanríkisráðherra gerir reyndar mikið úr því að Evrópusambandið hafi gert sérstaka undanþágu, ef það má kalla það það, hvað Ísland varðar með því að fela Íslandi ekki að hefja innleiðingu á lagabreytingum, uppbyggingu nýrra stofnana á slíku, þ.e. að hefja ekki hina eiginlegu aðlögun heldur sætta sig við að Íslendingar útlisti það hvernig þeir ætli að framkvæma þetta allt saman. Að þeir séu í raun tilbúnir með starfsfólk á hliðarlínunni til þess að hlaupa inn í tómar byggingar þegar og ef samþykkt verður að ganga í Evrópusambandið. Á því gerir hæstv. utanríkisráðherra mikinn greinarmun.

Gerir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sama greinarmun á þessu tvennu; annars vegar því að ráðast í lagabreytingar og stofnun nýrra stofnana, og hins vegar hinu, að vera búinn að ganga frá öllu en ekki að hrinda því í framkvæmd fyrr en daginn sem Evrópusambandsaðild er samþykkt?

Annað sem væri fróðlegt að heyra hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fara yfir í ljósi orða hans áðan um að hann telji sig ekki hafa nægar upplýsingar um hvernig hann eigi að standa að þessari undirbúningsvinnu; snýst þetta fyrst og fremst um skort á leiðbeiningum? Ef hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fær ítarlegar leiðbeiningar frá Evrópusambandinu um til hvers það ætlast, hvaða stofnanir eigi að vera til staðar, hvaða lög eigi að vera tilbúin í skúffunni o.s.frv., mun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þá framkvæma það allt sem Evrópusambandið ætlast til af honum?