139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

staðan í viðræðum við Evrópusambandið í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.

[15:16]
Horfa

Atli Gíslason (U):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að minna á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þar segir orðrétt, með leyfi herra forseta:

„Stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggur fyrir er háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum […].“

Síðar segir:

„Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma.“

Þessi orð ber að hafa í huga þegar orðaskipti innan ríkisstjórnarinnar fara fram.

Grundvallarforsendur og markmið þingsályktunar um umsókn um aðild ganga gegn meginreglum ESB svo sem fjórfrelsinu. Það á sérstaklega við í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Afleiðing þess er sú að ESB hefur nú sett opnunarskilyrði, „opening benchmark“, þ.e. viðræður um landbúnaðarkaflann verða ekki opnaðar fyrr en tímasett áætlun liggur fyrir um fulla aðlögun íslenskrar landbúnaðarlöggjafar að regluverki ESB. Sama mun verða uppi á teningnum í sjávarútvegsmálum. Fyrr verða kaflarnir ekki ræddir. Komi fram tímasett áætlun um lagaaðlögun á forsendum ESB, ekki forsendum Íslands, hefjast viðræður. Uppfylli Ísland ekki áætlunina meðan viðræður standa, verður samningskaflanum ekki lokað og sett „closing benchmark“ eða lokunarskilyrði. Þingsályktunartillagan veitir ekki umboð til að fara í gegn með þetta með þessum hætti. Einn aðalsamningamanna Íslands hefur staðfest það opinberlega að nýtt og opnara umboð þurfi til.

Berjum ekki hausnum við steininn. Eina raunhæfa úrræðið í stöðunni er að þjóðaratkvæðagreiðsla fari þegar í stað fram um hvort (Forseti hringir.) Ísland vill ganga í ESB á grundvelli regluverks ESB, á grundvelli fjórfrelsisins. Kennum ekki (Forseti hringir.) hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um það í hvaða stöðu málið er, í hvaða öngstræti það er.