139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

viðvera ráðherra við umræður.

[15:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað rétt hjá hv. þm. Merði Árnasyni að málið er komið núna inn í þingið eftir að hæstv. allsherjarnefnd hefur farið yfir það. En það breytir ekki því að málið er borið fram upphaflega af hæstv. forsætisráðherra. Mig rekur satt að segja ekki minni til að máli af þessari stærðargráðu, sem flutt er af ríkisstjórn eða einhverjum hæstv. ráðherra, sé ekki fylgt eftir af viðkomandi ráðherra og hæstv. ráðherra sé þá viðstaddur umræðuna.

Ég get tekið fjölmörg dæmi úr fortíðinni um að það hefur einmitt verið kallað eftir því að sá hæstv. ráðherra sem ber málið fram sé viðstaddur umræðu. Ég leit þannig á að þegar hæstv. forsætisráðherra var viðstödd umræðuna hér í upphafi væri það til vísbendingar um að hæstv. ráðherra vildi fylgja málinu eftir, enda tók hæstv. ráðherra virkan þátt í andsvörum vegna þess að hæstv. ráðherra taldi auðvitað tilefni til þess. Þess vegna er það bara eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra sé viðstödd umræðuna og taki þátt í henni og bregðist við (Forseti hringir.) ef tilefni gefst til.