139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hálfringlaður eftir ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar. Mig langar til að spyrja hann út í stefnu Framsóknarflokksins í þessum efnum vegna þess að í skýrslu stjórnarráðsnefndar Framsóknarflokksins frá árinu 2007 er áréttað „að ríkisstjórn skiptir sjálf með sér verkum en ekki löggjafinn“ og að unnt verði að breyta samsetningu, fjölda og heita ráðuneyta — „samsetning, fjöldi og heiti ráðuneyta eru ekki bundin í lögum“ segir í stefnu Framsóknarflokksins. Þetta gæti verið orðið gamalt, það eru liðin fjögur ár og stefna stjórnmálaflokka breytist á skemmri tíma, en hv. þm. Eygló Harðardóttir flutti hér ræðu fyrir einu ári þar sem hún minntist einmitt á þessa stjórnarráðsnefnd Framsóknarflokksins og sagði, með leyfi forseta:

„Tillögur okkur voru að mál sem eðli málsins samkvæmt heyra saman féllu undir sömu skrifstofu og það væri hægt að breyta samsetningu, fjölda og heitum ráðuneyta en framkvæmdarvaldið færi fyrst og fremst með það sjálft. Síðan lögðum við til að samsetning, fjöldi og heiti væru ekki bundin í lög heldur ættu raunar forsætisráðherra og ríkisstjórnin sjálf að geta ákveðið það.“

Þetta var semsé stefna Framsóknarflokksins í fyrra. (Forseti hringir.) En í áliti minni hluta allsherjarnefndar segir hv. þm. (Forseti hringir.) Vigdís Hauksdóttir að þetta muni skapa mikla óvissu (Forseti hringir.) eða upplausn innan stjórnsýslunnar. Hver er stefna Framsóknarflokksins í þessum efnum?

(Forseti (ÞBack): Hv. þingmenn verða að virða ræðutímann, hann er ein mínúta í hverri ræðu.)