139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[16:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að bregðast við því sem hv. þingmaður talaði um í sambandi við safnliðina. Ég tel áhyggjur hv. þingmanns vera of miklar af þeim málum því að verkefnið og markmiðið er að færa það í markvissara horf en verið hefur. Að því er stefnt og verið að vinna áfram þá vinnu í hv. fjárlaganefnd. Markmiðið með þeirri vinnu er ekki að færa frekari ákvarðanatöku til framkvæmdarvaldsins frá löggjafarvaldinu. Því til áréttingar er meiningin líka sú að setja hluta af því til annars stjórnsýslusviðs sem eru sveitarfélögin í landinu en þau eru með ákveðna sjóði og samninga sem á að gera þeim það mögulegt. Ég held að áhyggjur hv. þingmanns af þessu séu of miklar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það sem hann kom inn á í ræðu sinni er snýr að framsali valds frá löggjafanum til framkvæmdarvaldsins. Fram hafa komið t.d. áréttingar (Forseti hringir.) frá umboðsmanni Alþingis í þá veru að gengið hafi verið of langt. Hefur hv. þingmaður áhyggjur af því að gengið verði enn þá lengra með þessum hætti?