139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sú spurning vaknar hjá mér eftir að hafa hlustað á ræðu hv. þingmanns um þessi efni að hvaða leyti stuðst hafi verið við sjónarmið stjórnarandstöðunnar við sameiningu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis í ríkisstjórninni sem sat árið 2007. Ef ég leyfi mér að fiska í reynslubrunni hv. þingmanns var hann fyrsti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ef ég man rétt, eftir þá sameiningu ráðuneyta. Mér heyrist á málflutningi hans hér að helsta aðfinnsluefnið sé að ekki verði haft samráð við þingið í þessum efnum heldur sé þetta á hendi ríkisstjórnarinnar. Þess vegna leikur mér forvitni á að vita að hvaða leyti var farið að sjónarmiðum þingsins og stefnunni breytt eða hún löguð að vilja bæði stjórnarmeirihlutans sem þá sat og stjórnarandstöðunnar. Það er mikilvægt að vita þetta vegna þess að hafi það raunverulega verið framkvæmt þannig að hlustað hafi verið á rök með og á móti hér í þinginu kann að vera að það sé nokkuð sem við ættum að taka til nánari skoðunar.

Mér segir reyndar svo hugur að það hafi afar sjaldan komið fyrir að hlustað hafi verið með einhverri athygli í þessum sal á það sem sagt hefur verið um tilhögun ríkisstjórna hér undanfarna áratugi og það hafi fyrst og fremst verið á hendi ríkisstjórnar sem naut stuðnings meiri hluta þingsins að ákveða með hvaða hætti störfum hennar og verkaskiptingu væri best háttað.