139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:23]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ólíku saman að jafna. Annars vegar erum við með frumvarp sem lýtur að grundvallarbreytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands og hins vegar vorum við á árinu 2007 að gera tilteknar breytingar á skipulagi einstakra ráðuneyta. Það sem er ólíkt með þeim vinnubrögðum sem þá voru viðhöfð og því sem hér er verið að leggja upp með er það að í þessu frumvarpi er verið að leggja drög að því að þessum málum verði einfaldlega ekki ráðið til lykta á Alþingi. Nú man ég ekki nákvæmlega hvort gerðar voru breytingar á einhverjum tilteknum verkefnum í einstökum ráðuneytum eftir að þingið hafði farið um það sínum höndum, en aðalatriðið finnst mér vera að málið komi inn í þingið, þar sé það rætt fyrir opnum tjöldum, skipst sé á skoðunum, kallað eftir ýmsum ábendingum og eftir atvikum farið eftir þeim. Það er þannig í ýmsum málum og ég gæti auðvitað tíundað og rakið það hvernig var tekið tillit til athugasemda sem komu í einstökum málaflokkum þó að ég hafi það ekki á hraðbergi með hvaða hætti var staðið að því þegar var verið að sameina þessi ráðuneyti árið 2007. Stóra málið er það að ekki hvarflaði að neinum á því ári að það væri skynsamlegt að ganga frá skipulagsbreytingu í Stjórnarráðinu með öðrum hætti en þeim að koma með málið inn í þingið í þinglegum búningi og takast síðan á um það haustið 2007.