139. löggjafarþing — 161. fundur,  12. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[17:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef alveg skilning á því sjónarmiði í sjálfu sér að þegar ráðherra kemur inn í ráðuneyti þurfi hann að hafa sér við hlið pólitískan aðstoðarmann eða pólitíska aðstoðarmenn eftir atvikum vegna þess að verkefni sem ráðherra fær í hendurnar eru risavaxin og ekkert óeðlilegt við það að hæstv. ráðherra hver sem hann er vilji strax setja pólitískt mark sitt á það sem er að gerast.

Það er hins vegar ýmislegt athugavert við það sem verið er að gera hér. Í fyrsta lagi er verið að láta í veðri vaka að með þessum hætti hverfi menn frá því sem þeir hafa kallað pólitískar ráðningar. Ég er ekki viss um að það sé hægt að sýna fram á að þótt ráðnir séu 23 aðstoðarmenn ráðherra í stað þeirra tíu sem eru formlega í dag muni allar pólitískar ráðningar í ráðuneytunum og stofnunum hverfa. Ég held að þörfin fyrir að ráða pólitískt sé ekki bundin við 23, það getur vel verið að freistingin muni leiða menn út í það að ráða einhverja til viðbótar. Í öðru lagi finnst mér mjög sérkennilegt hvernig að þessu er staðið. Þetta eru 23 aðstoðarmenn. Það er gert ráð fyrir því að þrír séu einhvers konar flakkarar, eins og var hérna í kjördæmaskipaninni í gamla daga, sem geta farið á milli ráðuneytanna, enginn veit hvar þeir eiga að vera, það fer eftir „smag og behag“ — mati manna á því hvar þörfin er mest o.s.frv. Mér finnst þetta vera svolítið sérkennilegt fyrirkomulag og dæmi um að menn hafi ekki hugsað málið til enda.